• UFA bikar 2025
  • hlaup

    Langar þig að hlaupa?

    UFA Eyrarskokk býður upp á hlaupaæfingar við allra hæfi. Kynntu þér málið og prófaðu að kíkja á æfingu.

    Nánari upplýsingar hér.

     

  • MÍ 11-14 2021

Lög UFA

1. grein 
Félagið heitir Ungmennafélag Akureyrar, skammstafað UFA. Heimili þess og varnarþing er á Akureyri.

2. grein 
Tilgangur félagsins er:

  • að efla íþróttastarfsemi á Akureyri með aðaláherslu á iðkun frjálsra íþrótta, auk þríþrautar.
  • að stuðla að þroskandi félagsstarfi.
  • að vinna að heilbrigðu líferni og gegn hvers konar notkun vímuefna.

3. grein 
Aðalfund skal halda í febrúarmánuði ár hvert. Þá skal kjósa 5 menn í stjórn og allt að 2 menn í varastjórn sem sitja fundi. Fjöldi varamanna ræðst af fjölda framboða. Stjórnin velur sér formann en skiptir að öðru leyti með sér verkum. Endurkjör er heimilt.

4. grein
Aðalfund skal boða með minnst 14 daga fyrirvara á heimasíðu UFA og víðar ef þurfa þykir. Á heimasíðu UFA skal liggja fyrir dagskrá fundarins ásamt mögulegum lagabreytingartillögum (sbr. 13. grein) minnst 5 dögum fyrir aðalfund. Aðalfundur er löglegur sé löglega til hans boðað. Þá getur stjórn félagsins boðað til almenns félagsfundar ef þurfa þykir. Einnig er stjórninni skylt að boða til almenns félagsfundar ef 15 félagar eða fleiri æskja þess og skulu þessir fundir boðaðir með minnst 5 daga fyrirvara. 

  • Dagskrá aðalfundar skal vera eftirfarandi:
    1. Kosning fundarstjóra og fundarritara
    2. Skýrsla stjórnar
    3. Ársreikningur liðins árs lagður fram og borinn upp til samþykktar
    4. Fjárhagsáætlun komandi árs lögð fram og borin upp til samþykktar
    5. Lagabreytingar
    6. Ákvörðun um árgjöld félagsmanna
    7. Kosning stjórnar
    8. Kosning skoðunarmanna reikninga
    9. Viðurkenningar til iðkenda
    10. Önnur mál

5. grein
Árgjöld félagsmanna skal ákveða á aðalfundi. Reikningsár er frá áramótum til næstu áramóta.

6. grein
Allir sem æfa hjá UFA gerast sjálfkrafa félagar. Aðrir sem vilja gerast félagar sækja um það til stjórnar og hljóta sjálfkrafa inngöngu. Börn yngri en 12 ára hafa ekki atkvæðisrétt en hafa heimild til fundarsetu.
Kjörgengi er miðað við 18 ára aldur.

7. grein
Stjórn félagsins sér um allar framkvæmdir þess og skal hún leggja fram fjárhagsáætlun til umræðu og samþykktar á aðalfundi og ber gjaldkera að haga greiðslum sínum sem mest eftir henni.

8. grein
Heimilt er að starfrækja deildir innan félagsins. Nýjar deildir skal stofna á aðalfundi félagsins.
Frjálsíþróttadeild heyrir beint undir aðalstjórn.
Aðrar deildir skulu halda aðalfund minnst viku fyrir aðalfund félagsins. Aðalfundur deildar telst lögmætur sé hann auglýstur með minnst sjö daga fyrirvara. Stjórn hverrar deildar skal skipuð þremur til fimm mönnum kosnum á aðalfundi deildar og allt að tveimur til vara. Fjöldi aðal- og varamanna ræðst af fjölda framboða. Deildir hafa sjálfstæðan fjárhag og er heimilt að hafa eigin kennitölu en skila ársskýrslu og ársreikningi fyrir sitt starf til stjórnar félagsins a.m.k. viku fyrir aðalfund. Fjárhagsáætlanir deilda skulu samþykktar af aðalstjórn félagsins. Deildum er ekki heimilt að skuldbinda eða skuldsetja sig umfram eignir deildarinnar án þess að fyrir liggi samþykkt meirihluta stjórnar UFA í fundargerð. Sé engin starfsemi innan deildar og hún skilar ekki ársskýrslu og ársreikningi tvö ár í röð telst hún vera lögð niður.

9. grein
Félögum er skylt að hlýða lögum félagsins.

10. grein
Úrsögn úr félaginu skal tilkynna til stjórnar.

11. grein
Hagnaði/rekstrarafgangi af starfsemi félagsins skal varið til að efla starfsemi félagsins á næsta rekstrarári.

12. grein
Hætti félagið starfsemi eða verði slitið með samþykkt 2⁄3 hluta fundarmanna á aðalfundi ber að afhenda ÍBA allar eigur þess og gögn til varðveislu. Koma þarf fram í fundarboði aðalfundar að fjalla eigi um slit á félaginu. Verði félagið ekki endurreist innan tíu ára falla eignir þess, án skuldbindinga, undir ÍBA.

13. grein
Lögum þessum má aðeins breyta á lögmætum aðalfundi og þurfa tillögur um lagabreytingar að berast til stjórnar félagsins með minnst 7 daga fyrirvara. Tillögur að lagabreytingum skal kynna á heimasíðu UFA að lágmarki 5 dögum fyrir boðaðan aðalfund. Samþykki 2/3 hluta fundarmanna þarf til að lagabreytingar öðlist gildi.

Lög þessi öðlast gildi þegar ÍBA og ÍSÍ hafa staðfest þau.
Dags 19. febrúar 2025

 

Svæði

 Ungmennafélag Akureyrar   |   UFA