Vetrarhlaup UFA 27.-29. október 2020

Fyrsta vetrarhlaupið þennan veturinn verður haldið með breyttu sniði til að samræmast samkomutakmörkunum vegna Covid. Ekki verður haldið eitt hlaup fyrir alla heldur eiga liðin eða einstaklingarnir að ljúka sínu hlaupi sjálfir og setja mynd af sér inn á viðburðinn á Facebook því til sönnunar. Ljúka þarf hlaupinu á þriðjudegi 27. okt, miðvikudegi 28. okt eða fimmtudegi 29. okt. Þetta er gert til að dreifa vel úr hópnum en engu að síður þarf að passa að halda 2ja metra bili á meðan hlaupið er.

Skráning:
Skráning fer fram með því að senda nöfn (einstaklinga eða liða og láta þá nöfn hópmeðlima fylgja með) í messenger skilaboðum á FB síðu Vetrarhlaupa https://www.facebook.com/vetrarhlaup. Ekkert skráningargjald er að þessu sinni.

Einstaklingskeppni:
Einstaklingskeppni fer fram á Strava að þessu sinni. Búið er að gera Segment úr hlaupaleiðinni og til eiga möguleika á að fá stig í einstaklingskeppninni þarf að hlaupa leiðina og láta Strava taka tímann fyrir sig. Með því að hlaupa leiðina skráist Segmentið sjálfkrafa. Efstu hlauparar í kvenna- og karlaflokki fá stig. 1. sæti fær 10 stig, 2. sæti fær 9 stig og svo koll af kolli niður í 2 stig. Allir sem eru í 9. sæti eða lægra fá 2 stig fyrir þátttökuna. Ekki er samt nauðsynlegt að hafa aðgang að Strava til að geta tekið þátt í hlaupinu en án Strava er ekki hægt að fá auka stig í einstaklingskepninni, bara liðakeppninni.

Stigakeppni liða:
Hámark fimm einstaklingar geta skipað hvert lið. Hægt er að fá 1, 3 eða 5 stig í hverju hlaupi og fer það eftir mætingu liðsmanna. 5 stig fást ef 5 liðsmenn klára hvert hlaup fyrir sig, 3 stig fást ef 4 liðsmenn klára og 1 stig fæst ef 3 liðsmenn klára. Setja þarf inn mynd af liðinu þátttöku til sönnunar.

Aukastig:
Þar sem þetta er óvenjulegt hlaup í fordæmalausum aðstæðum eru nokkrir auka flokkar þar sem hægt er að sækja sér auka stig. Veitt eru stig fyrir innsendar myndir í eftirfarandi flokkum:
- frumlegasta liðsmyndin
- bleikasta liðið (í tilefni af bleikum október)
- flottasta liðshoppið
- flottasta handstaðan
- frumlegasti plankinn

Hlaupaleiðin:
Vetrarhlaup UFA 27.-29. okt 2020

Hlaupið hefst á göngustíg við Kjarnakot. Hefðbundin Kjarnaleið hlaupin til suðurs og upp að Naustaborgarstíg. Áfram er hlaupið á Naustaborgarstíg fyrir ofan Hamra og honum fylgt til norðurs að einstígi ofarlega, þá beygt til vinstri og slóðanum fylgt niður að reiðvegi sem er þveraður og svo áfram að vatninu. Þá er beygt til vinstri, mjór stígur hlaupinn að hefðbundinni leið um Naustaborgir og þá beygt til hægri inn á hefðbundna gönguleið um Naustaborgir. Þeirri leið er fylgt að vatninu og þá beygt til hægri, nú hlaupið fram hjá vatninu og leiðinni fylgt tilbaka Naustaborgirnar og inn á hefðbundna Kjarnaleið. Nú hlaupið til austurs, niður, fram hjá leiksvæði og endað á göngustíg við Kjarnakot.

Svæði

 Ungmennafélag Akureyrar   |   UFA