Vetrarhlaup UFA 24.-26. mars 2021

Enn leyfa samkomutakmarkanir ekki að hlaupið sé haldið með hefðbundnu sniði, já eða hvað telst „hefðbundið“ þessa dagan?. Hlaupið að þessu sinni verður því enn og aftur í formi segments á Strava en þó í ögn öðru formi en fyrstu fjögur hlaupin voru. Samkomutamarkanir gefa ekki færi á lokahófi en við ætlum samt að gera okkur glaðan dag í þessu seinasta hlaupi vetrarins, innan allra takmarkana og reglna.

Eins og áður verður hægt að hlaupa leiðina miðvikudag, fimmtudag og föstudag, en boðið verður upp á sameiginlega ræsingu á miðvikudag og fimmtudag kl. 17:30. Mæting er við kaffihúsið í Lystigarðinum kl. 17:15 báða dagana. Vegna fjöldatakmarkana er nauðsynlegt að skrá sig á þessa viðburði. Að hlaupunum loknum verður boðið upp á léttar veitingar á samkomuflötinni í Lystigarðinum. Ef ekki hentar að hlaupa á þessum tímum er frjálst að hlaupa á hvaða tíma sem er þessa þrjá daga. Eins og áður er ekki nauðsynlegt að liðin hlaupi saman. Við minnum á að fólk gæti vel að persónulegum sóttvörnum þegar við komum saman í Lystigarðinum eftir hlaup. Þar verður einnig sparibaukur sem hægt verður að lauma í smá aur upp í kostnað við veitingar.

Við hvetjum þá sem eiga lausa stund og eru ekki að hlaupa þann daginn að finna sér góðan stað í brautinni og hvetja þá sem eru að hlaupa áfram. Sköpum svolítið skemmtilega stemningu í þessu seinasta hlaupi vetrarins.

Ekki verður formleg verðlaunaafhending heldur verða verðlaun keyrð út til þeirra sem þau fá og úrslitin tilkynnt á Facebook-síðu Vetrarhlaupa.

 

Skráning

Þau sem eru á Strava og skrást inn á segmentið eru þar með sjálfkrafa skráðir í hlaupið. Þau sem ekki nota Strava eða ef eitthvað fer úrskeiðis varðandi segmentið geta sent skráningu í messenger skilaboðum á FB síðu Vetrarhlaupa https://www.facebook.com/vetrarhlaup .

Þeir sem vilja taka þátt sameiginlegu hlaupunum skrá sig hér: https://forms.office.com/Pages/ResponsePage.aspx?id=HzvSr_R1xkiMxaaGxquUg8W1qMGTQdtBiA5ca2PSHdpURDlYOUlHVlBFUUxXVVZGRkJaQTI3TE9TRy4u

 

Einstaklingskeppni

Einstaklingskeppni fer fram á Strava og er búið er að gera segment fyrir hlaupaleiðina. Til að eiga möguleika á að fá stig í einstaklingskeppninni þarf að hlaupa leiðina og láta Strava taka tímann fyrir sig. Með því að hlaupa leiðina skráist segmentið sjálfkrafa. Efstu hlauparar í kvenna- og karlaflokki fá stig. 1. sæti fær 10 stig, 2. sæti fær 9 stig og svo koll af kolli niður í 1 stig. Allir sem eru í 10. sæti eða lægra fá 1 stig fyrir þátttökuna. Ekki er samt nauðsynlegt að hafa aðgang að Strava til að geta tekið þátt í hlaupinu en án Strava er ekki hægt að fá stig fyrir efstu sætin í einstaklingskeppninni, bara stig í liðakeppninni.

 

Stigakeppni liða

Hámark fimm einstaklingar geta skipað hvert lið. Hægt er að fá 1, 3 eða 5 stig í hverju hlaupi og fer það eftir mætingu liðsmanna. 5 stig fást ef 5 liðsmenn klára hvert hlaup fyrir sig, 3 stig fást ef 4 liðsmenn klára og 1 stig fæst ef 3 liðsmenn klára.

 

Hlaupaleiðin

Við mælum með að skoða vel segmentið á Strava áður en lagt er af stað. Hér er hægt að sjá það: https://www.strava.com/segments/27697466

Hlaupið hefst austan (neðan) við Lystigarðinn, við innganginn þar. Hlaupið er niður Spítalaveg, beygt til vinstri niður Lækjargötu og svo rétt á eftir til hægri suður Aðalstræti. Beygt er inn á göngustíg sem hefst rétt eftir Duggufjöru. Við enda stígsins er farið yfir Naustafjöru og hlaupi ð á gangstéttinni út að enda Naustafjöru, þar er beygt til vinstri inn á stíg meðfram Miðhúsabraut, yfir Drottningabraut, beygt til hægri inn á strandstíginn. Hlaupið er þá til suðurs eftir strandstígnum, farið yfir gangbraut yfir Eyjafjarðarbraut og beygt til hægri. Þá er hlaupið upp í gegnum Kjarnaskóg og áfram eftir Kjarnagötu (í vinstri kanti hennar) sem leið liggur þar til komið er til byggða aftur. Til móts við Elísabetarhaga (þar sem Kjarnagata er tvískipt) er hlaupið hægra megin götunnar. Við hringtorgið við Naustagötu er beygt til vinstri og Kjarnagata hlaupin áfram þangað til komið er að Naustaskóla. Beygt er til hægri yfir gangbraut sem er við innkeyrslu að Naustaskóla og stígurinn sem liggur á milli skólans og leikskólans hlaupinn út á enda. Þá er beygt til vinstri og rétt á eftir til hægri og þá er farið yfir gangbraut yfir Miðhúsabraut og hlaupið meðfram Þórunnnarstræti þar til komið er að gangbraut til móts við Sjúkrahúsið, þar lýkur hlaupinu.

Í sameiginlegum hlaupum seinnipart á miðvikudag og fimmtudag verður brautarvarsla á nokkrum stöðum. Þeir sem hlaupa á öðrum tímum eru sérstaklega hvattir til að fara gætilega þegar farið er yfir umferðargötur.

Svæði

 Ungmennafélag Akureyrar   |   UFA