Vetrarhlaup UFA 24.-27. nóvember 2020

Annað hlaupið þennan veturinn þarf að vera með óhefðbundnu sniði til að samræmast núgildandi samkomutakmörkunum og sóttvarnarreglum.

Hægt verður að hlaupa leiðina á þriðjudegi, miðvikudegi, fimmtudegi eða föstudegi. Þetta er gert til þess að dreifa vel úr hópnum og forðast að margir séu á sama tíma að hlaupa þetta. Við hvetjum þátttakendur til að gæta vel að fjarlægðamörkum og að halda 2ja metra bili á meðan hlaupið er.

Ekki er nauðsynlegt fyrir alla liðsmenn í hverju liði að hlaupa á sama tíma, hver og einn getur hlaupið þegar hentar.

Skráning:

Fyrir þá sem eru á Strava og skrást inn á segmentið er ekki nauðsynlegt að senda inn skráningu sérstaklega. Þeir sem ekki nota Strava eða ef eitthvað fer úrskeiðis varðandi segmentið má senda skráningu í messenger skilaboðum á FB síðu Vetrarhlaupa https://www.facebook.com/vetrarhlaup . Ekkert skráningargjald er að þessu sinni.

Einstaklingskeppni:

Einstaklingskeppni fer fram á Strava að þessu sinni. Búið er að gera Segment úr hlaupaleiðinni og til að eiga möguleika á að fá stig í einstaklingskeppninni þarf að hlaupa leiðina og láta Strava taka tímann fyrir sig. Með því að hlaupa leiðina skráist Segmentið sjálfkrafa. Efstu hlauparar í kvenna- og karlaflokki fá stig. 1. sæti fær 10 stig, 2. sæti fær 9 stig og svo koll af kolli niður í 1 stig. Allir sem eru í 10. sæti eða lægra fá 1 stig fyrir þátttökuna. Ekki er samt nauðsynlegt að hafa aðgang að Strava til að geta tekið þátt í hlaupinu en án Strava er ekki hægt að fá stig fyrir efstu sætin í einstaklingskeppninni, bara stig í liðakeppninni.

Stigakeppni liða:

Hámark fimm einstaklingar geta skipað hvert lið. Hægt er að fá 1, 3 eða 5 stig í hverju hlaupi og fer það eftir mætingu liðsmanna. 5 stig fást ef 5 liðsmenn klára hvert hlaup fyrir sig, 3 stig fást ef 4 liðsmenn klára og 1 stig fæst ef 3 liðsmenn klára.

Aukastig:

Þar sem þetta er óvenjulegt hlaup í fordæmalausum aðstæðum eru veitt aukastig í óhefðbundnum flokkum. Að þessu sinni verða gefin tvö auka stig á lið fyrir flottustu botnana við þessa þrjá hlaupatengdu fyrriparta. Birta þarf skáldskapinn á FB síðu vetrarhlaupa og merkja hann liðum. Þetta eru fyrripartarnir:

  1. Kalt er úti karlinn minn
    kannski ég far‘að hlaupa

  2. Reima ég skó og renni upp
    reyni að hlaupa hraðar

  3. Í Vetrarhlaupum verður gaman
    vonandi gengur vel

Hlaupaleiðin:

Við mælum með að skoða vel segmentið á Strava áður en lagt er af stað, hér er það: https://www.strava.com/segments/26529795

Hlaupið hefst við stálhlið á göngustíg til móts við Borgir, húsnæði Háskólans á Akureyri. Hlaupið er til norðurs niður stíginn og beygt til hægri inn á göngustíg og í gegnum undirgöng Borgarbrautar, svo áfram yfir göngubrú Glerár (þessi rauða). Nú er hlaupið yfir gangbraut á Höfðahlíð og sveigt til vinstri, áfram upp, yfir Skarðshlíð og svo beygt til hægri inn á gangstétt vestan megin Skarðshlíðar. Skarðshlíðin kláruð alveg alla leið niður þar til komið er á gangstíg meðfram og norðan við Glerá. Hann hlaupinn upp meðfram Gleránni og alveg upp í Höfðahlíð. Höfðahlíðin hlaupin alveg að gangbraut til móts svið göngubrú og er hlaupið aftur yfir göngubrú Glerár, svo hlaupið áfram í gegnum undirgöng og fljótlega sveigt til vinstri og hlaupin lúppa upp á gangstéttina við Borgarbraut. Nú beygt til vinstri og áfram upp Borgarbraut og stefnt að trjálundinum meðfram Gleránni. Beygt til vinstri inn á göngustíg sem leiðir í gegnum trjálundinn. Göngustígur kláraður og nú hlaupið upp á Hlíðarbraut. Hlíðarbraut fylgt að Þingvallastræti. Þingvallastræti hlaupið áfram að göngustíg við Nettó, þá beygt til vinstri inn á göngustíg sem leiðir niður að Háskóla. Háskólastígur hlaupinn alla leið að stálhliði sem er endamark.

Hlaupið er tvisvar sinnum (einu sinni í hvora átt) yfir rauða göngubrú yfir Glerá og undirgöng undir Borgarbraut. Á þessu korti sést hvernig hlaupið er í hvora átt, gult er í upphafi hlaups og rautt er þegar komið er að brú og undirgöngum í annað skiptið.

Hlaupið hefst og endar við þetta hlið:

 

 

Svæði

 Ungmennafélag Akureyrar   |   UFA