• hlaup

    Langar þig að hlaupa?

    UFA Eyrarskokk býður upp á hlaupaæfingar við allra hæfi. Kynntu þér málið og prófaðu að kíkja á æfingu.

    Nánari upplýsingar hér.

     

  • MÍ 11-14 2021
  • MÍ 15-22 ára 2021

    UFA býður upp á frjálsíþróttaæfingar fyrir alla aldurshópa. Við getum bætt við okkur iðkendum í öllum aldursflokkum. Nánari upplýsingar hér.

Ort á hlaupum

Davíð Hjálmar Haraldsson hefur í gegnum tíðina sett saman margar góðar vísur um hlaup og hlaupara Langhlauparadeildarinnar. Hér birtum við brot af því besta frá honum.

Nóvember 2006
Halldór úrsmiður ákvað að bjóða upp á þá nýjung í því vertrarhlaupi sem hann styrkti að hlaupa undna vindi 10 km. leið.

Á Hadda góðan hef ég þokka,
hlaupið verður fyrirmynd
en auðvitað má aftast skokka
enginn sá er leysir vind.

21. september 2006
Í Akureyrarhlaupi var flögukerfi notað við tímatöku. Tölverðir erfiðleikar urðu við uppsetningu og notkun kerfisisn sem varð til þess að löng töf varð á því að keppendur fengju tímana sína.

Garpar hlupu - segja fornar sögur -
í sauðskinni um fjallvegi og hlíðar
en hátækni við höfum nú og flögur
og heyrum úrslit keppni viku síðar.
 
Júní 2006

Halldór Arinbjarnarson hljóp sitt fyrsta maraþon í Mývatnsmaraþoni 2006. Áður en haldið var af stað gáfu félagar hann það út að þeir hyggðust fylgja Halldóri upp í Mývatnssveit og fylgjast með Halldóri hlaupa jómfrúarmaraþonið.

Með þetta skap og þennan dug
og þrekið brjóst og læri
-ekki datt mér hreint í hug
að Halldór jómfrú væri.

25. maí 2006
Rannveig auglýsti eftir framkvæmdastjóra fyrir Akureyrarhlaupið. Davíð gerði það að tillögu sinni að ófæddur afkomandi formannssins tæki verkið að sér og Þorlákur (fyrrum formaður Akureyrarhlaups) gæti sagt til og fengið sig þar með lausan stund og stund frá húsbyggingu sem tekur krafta hans alla þetta sumarið.

Léttast myndi á Láka brún
og lagast geð þá yrði sóttur
í þrældóminn við Þrumutún
að þjóna formannssyni/dóttur.

Maí 2006
Rannveig Oddsdóttir hafði lýst því yfir að hún kæmi til með að mæta illa á æfingar næstu vikur sökum barneigna sem voru að bresta á.

Víst mætti hana sem vaxandi flokka,
virðist ögn þrekin og gerist öll stærri.
Hún er samt ekki að hætta að skokka
en hleypur þá fæðingardeildinni nærri.

Af sömu ástæðum sá Rannveig sér ekki fært að taka þátt í sólarlagshlaupi UFA þetta árið.Var hlaupið umhverfis Ólafsfjarðarvatn þar eð leiðin um Múlann var ótrygg.

Hlaupaleið sér viturlega valdi.
Virðist stutt í næstu léttasótt
og óskandi að allar vatni haldi
en endurnýi tapist það of fljótt.

28. apríl 2006
Nokkrar umræður höfðu verið innan hópsins um markmið og áherslur í hlaupaþjálfuninni. Davíð hafði þetta til málana að leggja:

Skokkið er lífsnautn er skyldi með alvöru taka,
skynsamur áætlun gerðu og settu þér mið.
Hlauptu svo langt að með herkjum þú komist til baka
og hlauptu svo dálítið áfram en snúðu þar við.

Desember 2005
Steini Pje. stóð fyrir morgunskokki frá Bjargi á jóladagsmorgun 2005. Auglýst var meðal hlaupara og tekið fram að hægt yrði að fara í sturtu á Bjargi eftir skokkið.

Bóhemslífið blessun er.
Burt úr jólaþvargi
Steini P í sturtu fer
með stelpunum á Bjargi.

8. október 2005
Í fyrsta vertrarhlaupi vetrarins bætti Rannveig Oddsdóttir eigið met á Lögmannshlíðarhringnum og setti þar með brautarmet kvenna á þeirri leið. Einhver benti þá að að þar með væri það trúlega einnig heimsmet þar sem Lögmannshlíðarhringurinn er jú aðeins til á þessum eina stað í veröldinni.

Blíndu hissa blóm og lyng.
Bik og möl upp tætti
þá á Lögmannshlíðarhring
heimsmet Rannveig bætti.

2. ágúst 2005
Þorlákur Axel Jónsson tók þátt í Barðsneshlaupi en villtist af leið og lendi í hálfgerðum hrakningum.

Barðsneshlaup mun örðugt enn.
Er þar flest á hvolfi.
Við rafgirðingar rembast menn
og reyna sig í golfi.

Við flugvélar þeir fara í kapp,
á fjallaslóða tryllast
og Þorláki sem þangað skrapp
því miður tókst að villast.

16. júlí 2005
Blönduhlaup var haldið í fyrsta sinn í júlí 2005. Vel var að hlaupinu staðið en þátttaka heldur dræm. Tveir félagar, Davíð Hjálmar og Þorlákur, úr Langhlauparadeildinni mættu í hlaupið og báru báðir sigur úr bítum í sínum flokki.

Blönduhlaup var bara lull,
bar ég þar af fríðastur
og Þorlákur sem þáði gull
í þeim flokki var síðastur.

6. júlí 2005
Fremur dræm mæting hafði verið á æfingar og formaðurinn sendi því út fyrirspurn þess efnis hvort fólk væri ekki að hlaupa eitthvað þó það sæist ekki á æfingum.

Margan sá ég glóp og glóp
er glápti á mig
af því að ég hljóp og hljóp
og hljóp á mig.

5. júlí 2005
Í júlí 2005 var í fyrsta skipti boðið upp á tindagönguna svokölluðu sem felst því því að ganga á 24 tinda við Eyjafjörð á einum sólarhring. Um sömu helgi höfðu langhlauparar áformað að hlaupa fram á Glerárdal. Þegar spurðist að einhverjir hlauparar ætluðu í tindagönguna var farið að skoða hvort fresta ætti Glerárdalshlaupi og efna frekar til hópþátttöku í tindagöngunni og hafði Rannveig á orði að hún væri orðin heit fyrir því að taka þátt í göngunni.

Sífrandi margur til sumarsins leit,
sá fram á peysur úr lopa,
en tölti nú Rannveig á tindana heit
taka strax jöklar að hopa.

4. júlí 2005
Lítið hafði séðst til Braga félaga okkar þetta sumar.

Teitur og tindilfættur
tíðum á skokki var.
Er Bragi Hlíðar hættur
að hlaup´uppi stelpurnar?

28. júní 2005
Þrír félagsmenn úr Langhlauparadeildinni tóku þátt í 10 km. hlaupi í Mývatnsmaraþoni 2005. Komust allir á verðlaunapall í sínum aldursflokki og hlutu önnur verðlaun í sveitakeppni. Davíð Hjálmar setti saman eftirfarandi vísur um ferðina:

Mývatnshlaup víst ég veit
vera í téðri sveit.
Þrátt fyrir þarlent raup
þetta er besta hlaup.

Þingeyskan þræddum veg
Þorlákur, Sigga og ég.
Hópurinn verðlaun vann.
Voru það tvenn á mann.

30. maí 2005
Formaðurinn óskaði eftir fréttum af æfingum og fromi þeirra félagsmanna sem ekki höfðu séðst á æfingum lengi.

Hækkar ört mín hlaupasól,
harða þjálfun stunda.
Fótbrotna vinn fyrir jól
og 400 punda.

7. maí 2005
Í maí 2005 lagði Rannveig Oddsdóttir leið sína til Rúanada og hljóp þar maraþon. Þar sem aðstæður í Rúanda þóttu fremur óútreiknanlegar var eina markmiðið sem gefið var út fyrirfram að ljúka hlaupinu án þess að falla í yfirlið af vökvaskorti eða sólsting.

Við rembumst í kulda við rostungagól
og ristum helst ísbjarnarsteikur
á meðan hún Rannveig í suðrænni sól
við svertingjapiltana leikur.

Hlaupið gekk hins vegar vonum framar, Rannveig hljóp á 3:20:41 sem þótti ásættanlegur tími miðað við aðstæður og náði auk þess öðru sæti kvenna í hlaupinu.

Út fór hún Rannveig með ásetning skýran,
ei vildi stikna né bíða þar tjón.
Svo kom hún aftur með silfurgrip dýran.
Sögu nú viljum um blámenn og ljón.

7. maí 2005
Þátttaka kvenna í 1. maí hlaupi olli formanni langhlauparadeildarinnar vonbrigðum, enda var formaðurinn sú eina sem hljóp 10 km. í kvennaflokki. Davíð Hjálmar hafði skýringuna hins vegar á reiðum höndum og setti saman eftirfarandi stöku:

Ég held það sem fraukurnar flýi
sé flýtir þinn, úthald og kraftur.
Notaðu belti með blýi,
þá byrja þær vonandi aftur.

20. apríl 2005
Rannveig sendi félagsmönnum línu og óskaði eftir félagsskap á langri æfingu:

Undirrituð er að yfirstíga erfiðasta hjallann í maraþonundirbúningnum fyrir
Rúandaferðina í maí. Á sunnudaginn er síðasta langa-langa hlaupið á dagskrá,
en þá þarf ég að ná u.þ.b. 30 km. Þar sem fæstir eru að hlaupa svo langt
þessa dagana, hefur mér dottið í hug að bjóða ykkur að hlaupa með mér á
vöktum á sunnudagsmorgun. Ég er að hugsa um að hlaupa Eyjafjarðarhringinn og
datt í hug að einhverjir gætu hlaupið með mér frá sundlauginni kl. 9 og
aðrir keyrt fram í fjörð upp úr 10 og fyrri hópurinn þá tekið bílinn til
baka. Langar að heyra hvort einhverjir eru til í þetta, -og þá hverjir vilja
vera í fyrri hópnum og hverjir vilja nýta tækifærið til að sofa út, en mæta
samt á æfingu á sunnudagsmorgni :-) -Ég get lánað minn bíl í verkefnið ef
þarf.

Davíð svaraði:

Þó að sumir hlaupi hægt
í hringinn má þeim raða
ef það getur öðrum nægt
að amla á gönguhraða.

25. nóvember 2004
Sólarlagshlaup UFA hefur verið haldið á hverju vori frá 2003, en þátttaka verið heldur léleg nema fyrsta árið þegar fylgst var með sólmyrkva úr Ólafsfjarðarmúla. Vorið 2004 voru þátttakendur aðeins tveir og komu að lokaðri sundlaug á Dalvík að hlaupi loknu. Formaður langhlauparadeildarinnar óskaði því eftir tillögum félagsmanna um framkvæmd hlaupsins þegar hlaupadagskrá næsta árs var undirbúin.
 
Saman tveir í fyrra fóru

fyrir Múla. Gaman var.
Eftir túrinn eiða sóru:
Ýmsar verði breytingar.

Þótt ég vilji síður súta
segi ég af hjartans lyst:
Opni sundlaug! Aki rúta
til Ólafsfjarðarbæjar fyrst!

 

19. október 2004
Þolákur Axel Jónsson tók þátt í Amsterdammaraþoni í október 2004 og hljóp á 3:17:04.

Þorlák veit ég mestan mann
af mörgum öðrum stórum.
Í þoninu sá þundur rann
á þrem sautján núll fjórum.

Þorlákur hafði sett stefnuna á tímann 3:15 og þegar farið var að skoða myndir frá hlaupinu sást hann hlaupa með blómvönd síðustu metrana.

Þreytan glapti þennan mann:
Þáði mútur.
Tók við blómum. Tafði hann
tvær mínútur.

 

29. febrúar 2004
Tvísýnt var með færð á Lögmannshlíðarhring sem hlaupa átti í vetrarhlaupi.

Í Lögmannshlíð er ennþá ís,
aur og stöku hola.
Þar skafla eða skauta kýs
og skó er drullu þola.

Svæði

 Ungmennafélag Akureyrar   |   UFA