• MÍ 11-14 2021
 • MÍ 15-22 ára 2021

  UFA býđur upp á frjálsíţróttaćfingar fyrir alla aldurshópa. Viđ getum bćtt viđ okkur iđkendum í öllum aldursflokkum. Nánari upplýsingar hér.

 • hlaup

  Langar ţig ađ hlaupa?

  UFA Eyrarskokk býđur upp á hlaupaćfingar viđ allra hćfi. Kynntu ţér máliđ og prófađu ađ kíkja á ćfingu.

  Nánari upplýsingar hér.

   

Jón Hlaupari

"Mun hlaupa þar til ég dett niður dauður"

Eftirfarandi viðtal tók Ásgrímur Örn Hallgrímsson blaðamaður á Vikudegi við Jón Guðlaugsson.

Viðtalið birtist í Vikudegi 12. febrúar 2004 og er birt hér með leyfi blaðamanns.

mynd_jon_hl_400

 

Jón Guðmundur Hvammdal Guðlaugsson bóndi, er hann titlaður í símaskránni, en er sennilega betur þekktur undir nafninu Jón ,,hlaupari.” Vikudagur ákvað að hafa tal af Jóni, sem fæddist 1926 og er því 68 ára að aldri og var hann svo vinsamlegur að bjóða blaðamanni í heimsókn í íbúð sína hér í bæ er til hans var leitað.
Árið 1968 varð Jón fyrsti Íslendingurinn til að hlaupa löglegt maraþonhlaup, áður hafði Íslendingur hlaupið maraþon, en það var ekki löglegt, því það vantaði tæpa tvo kílómetra upp á vegalengdina.
Það fyrsta sem tekið var eftir er inn var komið, var mikið safn verðlaunagripa sem Jón hefur unnið sér inn á löngum hlaupaferli sínum. Því lá beinast við að spyrja Jón, hvenær hann hefði fyrst reimað á sig hlaupaskóna.

,,Það var Sigurður heitinn Greipsson sem kom mér af stað í þessu, en hann var á sínum tíma frægur glímumaður. Það má segja að ég hafi verið hlaupandi frá því um 1950. Það má nefna að fjórða október 1958 hljóp ég frá Kambabrún og á Melavöllinn í Reykjavík. Það fór nú heldur illa, því þeir sem áttu að koma frá Reykjavík til að hlaupa voru ekki mættir. Sá sem keyrði mig í hlaupið var formaður ungmennafélags Biskupstungna, Einar, sonur Þorsteins á Vatnsleysu. Því fórum við til Reykjavíkur til að leita að þeim, en þá komumst við að því að þeir biðu okkar í skíðaskálanum í Hveradölum. Við fórum þangað, en þeir vildu hætta við því það var farið að skyggja, en ég tók það ekki í mál. Lagt var af stað og þegar ég var að hlaupa Ártúnsbrekkuna var frostið orðið það mikið að þeir vildu að ég hætti. Því neitaði ég og kláraði hlaupið. Þetta spurðist út og kom í fjölmiðlun, því þetta þótti mikið afrek að hafa komist lifandi úr hlaupinu. Það var meira að segja skrifað um þetta í New York Times, því allir vita að þegar hlaupið er í miklum kulda og þegar maður fer að kólna niður þá þykknar blóðið svo mikið til höfuðsins að maður getur bara dottið niður dauður.”

Hvaðan ertu?
,,Ég er fæddur á Ánabrekku í Borgarhreppi í Mýrarsýslu, en þegar ég var tveggja ára þá fluttumst við að Kárastöðum sem er rétt hjá Borgarnesi. Það var nú ægilegt uppeldi sem ég lenti í. Faðir minn kenndi meðal annars nágranna sínum um að móðir mín hefði haldið framhjá sér með nágranna þeirra og að hann ætti mig. Þegar ég var tveggja ára þá fór þetta fyrir dómara og allt en á endanum þa´gegst hann við mér. Eftir þetta upphófst mikið hatur í minn garð frá fjölskyldunni. Ég var alltaf skilinn útundan og þessvegna er ég með gífurlega mikið sjálfstraust, það myndast gífurleg harka í manni og því þoli ég vel mótlæti. Maður þroskast vel af þeim líkamlegu, andlegu og sálarlegu erfiðleikum sem ég hef gengið í gegnum í lífinu.“

,,Það var nú hann bróðir minn, hann átti fleiri hundruð milljónir. Ég heyrði það alltaf að ég fengi ekkert af því og nú er hann farinn. Það er ekki réttlátt og upp hefur komið ágreiningur um erfðaskrána. Ég fékk mér lögfræðinga að sunnan til að fara með mín mál en þeir gáfu málið frá sér og áður en ég vissi af var búið að skipta búinu. Þá hringdi ég beint í Jón Steinar Gunnlaugsson, sem tók málið að sér, og það á að stefna öllum sem að þessum gjörningi hafa komið.”

,,Ég fór að heiman um fermingu og fór að vinna hjá óprúttnum bændum, sem ráku á eftir mér eins og ég væri hundurinn þeirra, en þegar þessu lauk þá fór ég í vegavinnu. Þetta var á stríðsárunum, en þá var mokað á vörubílana og þar mokaði maður á fljúgandi spretti því bændurnir höfðu þjálfað mig upp í þessa hraðvinnu. Eftir þetta fór ég aftur að vinna hjá bændum en svo um tuttugu og fimm ára aldur fór ég í Biskupstungurnar. Þá tók nú ekki betra við því þetta var kallað Sultartungur og Gullhreppar, og ég lenti í Sultartungunum. Þar var harkan enn meiri en í Borgarfirðinum, en þá var ég farinn að þjálfa mig og þar kynntist ég Sigurði. Það að þjálfa mig og hlaupa var hátíð á móts við að vinna.”

,,Enn þann dag í dag vinn ég á miklum hraða, en ég hef verið að vinna bæði í Skagafirði, í heyvinnu, og í Biskupstungum, en þar á ég jörð og stunda kartöflurækt. Þrátt fyrir háan aldur þá finn ég ekkert fyrir því að vinna svona hratt. Ég veit ekkert hvað aldur er, mér finnst ég vera líkamlega sterkur eins og ég væri innan við tvítugt.”

Hefurðu alltaf verið einn?
,,Ég var nú giftur stúlku frá Siglufirði, en það samband entist ekki vegna læknamistaka. Hún þurfti að fara í aðgerð en þá voru báðir eggjaleiðararnir skornir í sundur og vegna þess að hún gat ekki eignast börn þá sagði hún að það væri þýðingarlaust fyrir okkur að vera lengur saman. Vegna þessara læknamistaka fór með málið fyrir dómstóla og vann fyrir hana nokkrar milljónir. Svo aðstoðaði ég hana við að kaupa íbúð í Reykjavík, en ég lagði reyndar til tvær milljónir aukalega.”

Hvenær fluttistu norður?
,,Það var árið 1987 sem ég fluttist til Akureyrar. Þannig var að ég keypti tvær íbúðir á einu bretti, aðra hér og svo nýja í Reykjavík. Þannig var að ég var búinn að sækja um lán hjá húsnæðiskerfinu fyrir íbúð í Reykjavík. En mig var farið að lengja eftir svarinu og því kom ég hingað og keypti ódýra íbúð, en þegar ég kom aftur suður þá lá fyrir að ég fengi lánið og því keypti ég mér nýja íbúð í blokk. Áður en þetta var hafði ég byggt stórt og mikið hús í Brúarhvammi í Biskupstungum, sem ég á enn og reyndar báðar íbúðirnar líka, enda er ég mikið á ferðinni.”

Jón hefur frá mörgu að segja er hann fer að rifja upp ýmis hlaup sem hann hefur þreytt í gegnum árin. ,,Ég man til dæmis vel eftir hlaupi frá árinu 1961 sem haldið var á héraðsmóti á Snæfellsnesi. Þá vann ég fyrstu verðlaun.” Jón skoðar verðlaunaskjalið og segir, ,,tíminn var fjórar, þrjátíu og sjö. Þeir gáfu okkur silung að borða, en það var það versta sem maður gat fengið fyrir hlaupið því það var svo þungt í maga, en ég hafði það þó af að vera á undan. Maður varaði sig ekki á þessu.”

Jón fer í gegnum og sýnir blaðamanni mikið af verðlaunaskjölum og segir frá vegalengdum, ártölum og þeim tímum sem hann náði. Greinilegt er að hann hefur gaman af að rifja upp gömul hlaup.

Veistu hvað þú átt marga verðlaunagripi?
,,Ætli þeir séu ekki allt í allt tæplega tvöhundruð.”

Hvað hefurður tekið oft þátt í Reykavíkurmaraþoninu?
,,Það var afmæli á síðasta ári, þá var hlaupið í tuttugasta sinn, en ég hef hlaupið í sautján skipti og alltaf heilmaraþon. Ég hljóp ekki fyrstu tvö árin og svo féll eitt skiptið úr hjá mér. Svo var keyrt á mig 1994, þá kemur einn og keyrir aftan á mig. Ég þeyttist áfram á löppunum og skall svo niður. Þá mölbrötnuðu tvær tær, en þegar lögreglan og sjúkrabíll mættu á staðinn og ætluðu að setja mig á börur, þá stóð ég upp og kláraði hlaupið, alblóðugur. Menn reyndu að fá mig til að stoppa því ég átti eftir tíu kílómetra, en ég gafst ekki upp, kláraði hlaupið og ekki nóg með það heldur vann ég í mínum aldursflokki.”

,,Það er einnig hlaupið maraþon við Mývatn, en eftir að það var farið að láta hlaupa á næturna, þá tek ég bara þátt í hálfmaraþoninu þar. Það er svo kalt á næturna, en þetta er kallað miðnæturhlaup sem er í kringum Jónsmessuna. Það er það skemmtilegasta við að taka þátt í hálfu maraþoni, að þeir hleypa tíu kílómetra hlaupurunum af stað rétt fyrir neðan Reykjahlíð en við byrjum gagnstætt við vatnið. Þegar ég fer að tína tíu kílómetra hlauparana upp, þá myndast skemmtileg keppni. Þeim er illa við það. Þeir þekkja mig og reyna að bjarga sér með því að láta mig ekki fara framúr. Sumir ná að bjarga sér en hinum fer ég fram úr. Ég man eftir einu hlaupi, fyrir tveimur árum síðan, þá náði ég ansi mörgum. Það sem rak mig áfram, voru tvær stúlkur á besta aldri sem hlupu líka hálfmaraþon, þrautþjálfaðar. Þær reyndu alltaf að fara frammúr mér, en ég var alltaf í sprettum og hleypti þeim ekki frammúr. Þegar nokkrir kílómetrar voru eftir þá fór að kárna gamanið, því þá fóru þær að reyna að sprengja mig. Fyrst kom önnur og tók góðan sprett, en ég hljóp við hliðina á henni og hún komst ekki fram úr. Þá komr hin á spretti en komst ekki heldur fram úr. Svo þegar nokkuð hundruð metrar voru eftir þá komu þær báðar og ekkert eftir gefið. Það sem bjargaði mér var að við endamarkið, hjá Skútustöðum, er hlaupið upp brekku. Þær voru alveg samsíða mér þegar brekkan kom en ég var betur þjálfaður ú brekkunum og þær hurfu. Rétt áður en ég kom í mark þá var ég alveg að ná einni stelpu sem var um fermingu, þá tók hún slíkan sprett og var á undan mér í mark. Ætli henni hafi þótt það skömm ef ég yrði á undan í mark, hún var líka í tíu kílómetrahlaupinu.”

,,Þegar ég hleyp, sama hvort um er að ræða maraþon eða styttri vagalengdir, þá tek ég alltaf gríðarlegan endasprett. Ég tek á sprett í Reykjavíkurmaraþoninu, þegar um hundrað eða tvöhundruð metrar eru eftir. Þessu hafa áhorfendur gaman að og hvetja mann óspart áfram.”

Ertu alltaf að Hlaupa?
,,Ég hleyp bara þegar hlýtt er, því ég hleyp svo langa leið úr bænum. Það stysta sem ég æfi mig er hálft maraþon. Það er alveg dauðhættulegt að hlaupa þegar kalt er því á leiðinni til baka kólnar maður oft niður. Það er engin þjálfun í því að hlaupa í frosti og ég sæti lagi að hlaupa þegar hlýtt er í veðri. Þegar ég þjálfa mig hleyp ég alltaf eins og ég sé í keppni og keyri ég mig alveg miskunarlaust áfram, því verða að líða einn eða tveir dagar á milli æfinga. Það hefur komið fyrir eftir þjálfun að ég hef hnígið niður. Þá er ég um 15 mínútur að ná mér. Ég hleyp oft að Dalvíkurvegamótunum og aftur tilbaka. Svo hleyp ég að Bægisá og aftur tilbaka. Stundum hleyp ég upp að Skíðahótelinu, en þá er það meiri þolhlaup, því maður nær engum hraða við að hlaupa þangað.”

„Ég mun hlaupa þar til ég dett niður, það er ekkert gefið eftir með það því ég er svo harður við sjáflan mig. Ég get ekki spáð fram í tímann, en ég veit að þeir sem reyna á sig framí rauðan dauðann detta venjulega dauðir niður þar sem þeir standa. Ég reikna með að þannig muni fara, en svona hefur lífshlaup mitt verið,“ segir Jón að lokum.

Ásgrímur Örn Hallgrímsson, blaðamaður á Vikudegi.

 

Svćđi

 Ungmennafélag Akureyrar   |   UFA