Jómfrúarhlaup Halldórs Arinbjarnarsonar

-Halldór Arinbjarnarson segir frá sínu fyrsta maraþoni sem hann hljóp á Mývatni sumarið 2006

 

Ég vissi fyrir víst að nú yrði ekki aftur snúið. Yngvi Ragnar var byrjaður að telja niður og innan nokkurra sekúndna myndi skotið ríða af. Ég var saddur á rásmarkinu í Mývatnsmaraþoni 2006, framundan voru 42,2 kílómetrar, mitt fyrsta maraþon.

 

En hvernig hafði þetta allt byrjað? E.t.v. er hlaupasaga mín svipuð og margra annara. Í allmörg ár hafði ég skokkað mér til skemmtunar og heilsubótar, yfirleitt alltaf sömu leið, 6-10 km en sjaldnast lengra, fram og til baka eftir Svalbarðsströndinni. Engin regla var á hlaupunum, farið út á vorin og sumrin þegar veður var gott en nánast ekkert yfir veturinn. Nokkrum sinnum hafði ég tekið þátt í 10 km almenningshlaupum og í jafn mörg skipti ákveðið að gera slíkt aldrei aftur eftir að hafa hlaupið með blóðbragðið í munninum megnið af leiðinni. Árangurinn var bestur eitthvað í kringum 50 mínútur.

 

Í slæmum félagsskap

Er kom fram á árið 2005 var aðeins meiri alvara sett í hlaupin. Væntanlega er einkum um að kenna „slæmum félagsskap“ á vinnustað þar sem hlaupaáhugi var þó nokkur og ágerist stöðugt. Ekki er þó hægt að segja að regla hafi verið á æfingum en stundum var farið aðeins lengra en 10 km og líka hlaupið oftar, jafnvel 2-3 í viku þegar best lét. Einhvern tímann bjó um sig sú ákvöðrun að klára nú hálft maraþon og stefnan í laumi sett á Akureyrarhlaup í september. Um sumarið lét ég einnig Starra Heiðmarsson, nágranna minn, véla mig í að taka þátt í Þorvaldsdalsskokkinu, sem ég komst sæmilega frá þótt tíminn hafi ekki verið neitt stórkostlegur og nokkuð frá settu marki, rúmir 3 tímar. Sama var uppi á teningnum er kom að Akureyrarhlaupi um haustið, ég náði að klára hálfa maraþonið með sæmilegri reisn en tíminn nokkuð frá áætlun eða rúmlega 1:50.

 

Reglulegar æfingar og hvað gerðist svo...?

Haustið 2005 lét ég loks verða af því að mæta í skokkhóp UFA. Þetta voru ákveðin tímamót því nú komst loks einhver regla á hlaupaæfingarnar. Ég reyndi að mæta reglulega tvisvar í viku og hélt líka áfram í ræktinni þar sem ég hafði í nokkur ár stundað hina frábæru hádegistíma hjá Bjargi - líkamsrækt. Stefnan á hlaupunum var sett á að taka þátt í einhverjum almenningshlaupum sumarið 2006 og bæta tímann í hálfu frá sumrinu áður.

Hvað síðan gerðist er mér ekki að fullu ljóst en einhverntíma snemma árs fékk ég einu sinni sem oftar póst frá Einar Guðmundssyni, félaga mínum í höfuðborginni, sem tjáði mér að hann væri skráður til þátttöku í Londonmaraþoni vorið 2006. Jafnframt varpaði hann upp þeirri hugmynd að við færum saman í Kaupmannahafnarmaraþon árið eftir, þ.e. vorið 2007. Ekki veit ég hversu mikil alvara var á bakvið þessa hugmynd hjá Einari en þetta kveikti samt í mér. Nú var hins vegar úr vöndu að ráða. Vissulega hafði draumurinn um heilt maraþon lengi blundað í mér en hins vegar var jafn ljóst að mitt fyrsta maraþon yrði í Mývatnssveit, þar sem ég er fæddur og uppalinn. Staðan var m.ö.o. sú að ef ég myndi bíða með maraþon fram á árið 2007, með stefnuna á Kaupmannahöfn í maí, yrði það mitt fyrsta maraþon þar sem Mývatnsmaraþon er ekki fyrr en í júní. Eini möguleikinn í stöðunni var því að taka Mývatnsmaraþon strax vorið 2006. Ég melti þetta í 2-3 vikur en skömmu fyrir páska ákvað ég að negla bara á það. Ég fann líka að hlaupaformið hafði batnað verulega með reglulegri æfingum. Ég leitaði uppi á Netinu 16 vikna æfingaáætlun fyrir maraþon og hóf að fylgja henni. Að vísu voru ekki nema 13 vikur í Mývatnsmaraþon en úr þessu yrði þetta að duga.

 

Lagt af stað með góð áform

Hér var ég sem sagt staddur 13 vikum síðar á ráslínu í Mývatnssveit og nú reið skotið af. Ég hafði fyrirfram sett mér það markmið að hlaupa undir 3:45. Til að það gengi upp mætti ég ekki vera mikið lengur en 5:15 mínútur að hlaupa hvern kílómetra, sem ég taldi ágætlega raunhæft, ekki síst þar sem aðstæður í Mývatnssveit voru nánast eins og best verður á kosið til hlaupa. Ég var því fullur bjartsýni á ráslínunni. Áætlunin gekk út á að hlaupa fyrstu kílómetrana á ca. 5:25 tempói en herða síðan á sér, minnugur fjölmargra maraþongreina sem ég hafði lesið sem allar vöruðu við því að fara of hratt af stað. Varðandi rétta hlaupahraðann setti ég allt mitt traust á Garmin Forerunner 350 hlaupaúrið sem ég hafði fjárfest í þegar maraþonæfingar hófust fyrir alvöru.

 

Áfram veginn

Mér gekk ekki of vel að finna rétta hraðann í byrjun, fannst ég vera þungur og fara heldur hægt. Fyrstu 7 km var tepóið frá 5:20 til 5:28 og ég vissi að það myndi ekki skila mér innan settra tímammarka með sama áframhaldi. Vindurinn var líka í fangið og púlsinn hærri en ég hefði kosið. Þegar fór að halla undan brekkunni áleiðis að Arnarvatni jókst hraðinn og ég hlakkaði til að losna við mótvindinn þegar beygt yrði við Laxá, áleiðis norðan við Mývatn. Eins og allir hlauparar þekkja er hins vegar mótvindur ríkjandi vindátt á Íslandi og því var vindurinn enn á ská á móti þótt búið væri að beygja. Við Geirastaði var ég kominn í spreng og mátti stoppa til að létta á mér.

Áfram var haldið og nú nálgaðist það sem fyrir mér var hápunktur hlaupsins, ásamt því að klára auðvitað, en það var að hlaupa framhjá æskustöðvunum í Vagnbrekku. Hér þekkti ég hverja þúfu og naut þess að hlaupa. Svo vel hittist á að Egill frændi minn í Vagnbrekku og Dagbjört voru útivið og gat ég því kastað á þau kveðju er ég skokkaði framhjá, frekar ánægður með mig. Kílómetrarnir rúlluðu inn einn af öðrum og við Neslandatangann var komið að 21 km markinu og tíminn rétt um 1:50, allt samkvæmt áætlun og fæturnir í fínu lagi. Brekkan upp að vegamótum við Grímsstaði er lúmsk og tók vel í og aftur þurfi ég að pissa. Þetta var nú fullmikið af því góða.

 

Hallar undan færi – eða þannig

Ég reyndi að bæta aðeins í niður brekkuna áleiðis að Reykjahlíð og fann að ég var aðeins byrjaður að þreytast. Nú var reyndar vindurinn í bakið en á móti fór ég að svitna meira. Ég var hins vegar búinn að fá mig fullsaddan af pissustoppum og trassaði því að drekka. Það var ekki gott ráð eins og síðar kom í ljós. Nú lá leiðin framhjá Vogum og fæturnir farnir að þyngjast nokkuð. Þetta var samt ekkert sem kom mér á óvart og ég var alveg rólegur. Við Geiteyjarströnd var þetta hins vegar að verða verulega erfitt. Það var eins og allur skrokkurinn væri undirlagður af þreytu en samt þann ég hvergi verulega til. Það var líkast því að einhver rödd í höfðinu segði stöðugt: „Nú væri gott að labba smá spöl...nú væri gott að labba smá spöl.“ Samt náði ég að þrjóskast við og hlaupa áfram, meira að segja á þokkalegum hraða, ca. 5:08 tempói og tvo kílómetra undir 5. En á 36. kílómetra þraut mig örendi. Þrátt fyrir stöðuga hvatningu og uppörvun míns „hundtrygga aðstoðarmanns“, sem hjólaði með mér allt maraþonið (þ.e. Eddu, konunnar minnar), þá lét ég undan röddunum og gekk smá spöl.

 

Aftur rætist úr

Þannig gekk þetta næstu fjóra km um það bil. Ég náði að berja mig áfram með smá göngutúrum inn á milli en hraðinn datt að sjálfsögðu niður. Meðaltempóið á hvern km fór úr 5:10 í 5:40 og yfir 6 þegar verst lét. Ég var uppgefinn andlega og viss um að markmiðið með tímann væri fokið út í veður og vind. Loks á fertugasta kílómetra fékk ég mér duglega að drekka, eftir staðfasta hvatningu konu minnar. Samtímis fékk ég hlaupafélaga þegar Agga úr Laugaskokkinu náði mér. Heilsan batnaði stórlega og mér veittist tiltölulega létt að fylgja Öggu eftir. Nú var farið að styttast í mark við Skútustaði og ég fann að ég var allur að koma til, bætti enn betur í og kláraði á 3:43:29, innan þeirra tímamarka sem ég hafði sett mér.

 

Eftirköstin

Heilsan var tiltölulega fljót að koma aftur. Eftir að hafa lagt mig dágóða stund í grasbrekku við markið og notið þess að hafa klárað var notalegt að fara inn í Selið og gæða sér á kjötsúpu. Toppurinn var auðvitað að fara síðan í Jarðböðin, láta líða úr sér og taka við hamingjuóskum. Eftirköstin voru minni en ég hafði óttast. Ég lá reyndar andvaka nánast alla nótina og var ansi stirður til gangs daginn eftir en á sunnudaginn voru bara minniháttar strengir. Ég fór í ræktina á Bjargi á miðvikudegi, þ.e. 5 dögum eftir maraþon, út að hlaupa daginn eftir, aftur í ræktina á föstudegi og tók síðan Þorvaldsdalsskokkið á laugardegi. Ég einsetti mér að fara rólega en bætti samt tímann frá árinu áður um 15 mínútur og átti nóg eftir í lokin.

 

Nokkur orð um undirbúninginn

Sagt er að maraþon sé sú íþróttagrein sem síst fyrirgefur þér lélegan undirbúning og er líkast til mikið til í því. Margir hafa spurt mig hversu mikið ég var að hlaupa á undirbúningstímabilinu og átt erfitt með að trúa því hversu „lítið“ ég var í raun að hlaupa. Þegar ég segi lítið er ég að miða við tölur um 70-90 km á viku og þar yfir sem mér skilst að séu ekki óalgengar í maraþonundirbúningi. Er fólk þá að hlaupa 5-6 daga vikunnar, stundum tvisvar á dag. Ég hljóp sjaldnast nema þrisvar í viku og lengsta vikan var rúmir 60 km í heildina. Ekki samt misskilja mig – mér dettur ekki í hug að andmæla þeirri staðreynd að löng hlaup eru grundvallaratriði ef fólk ætlar að geta komist í gegnum maraþon með sæmilegri reisn. Ég hljóp þrisvar um og yfir 30 km hlaup, lengst 35 km þremur vikum fyrir maraþon. Ég saknaði þess samt að eiga ekki fleiri löng hlaup að baki en þetta slapp.

Sú æfingaáætlun sem ég fann mér á Netinu nefnist FIRST og er skammstöfun á „Furman Institute of Running & Scientific Training“. Upphaflega rakst ég reyndar á hana í grein á runnersworld.com (The Less-Is-More marathon plan) þar sem hún er birt í einfaldaðri útgáfu og notaði ég hana. Í grófum dráttum gengur planið út á að hlaupa þrivar í viku og stunda aðrar æfingar með tvo daga vikunnar, þ.e. æfa 5 daga vikunnar, þar af þrivar sinnum hlaup. Tilgangurinn er m.a. byggja upp þrek og þol með fjölbreyttari hætti en bara hlaupum og draga þannig úr hættu á álgasmeiðslum. Sem „viðbótaræfingar“ notaði ég hádegistímana á Bjargi og þannig gat ég lagt aukna áherslu á hlaupin án þess að fórna félagsskapnum í hádegisþrekinu. Þetta var því áætlun sem smellpassaði fyrir mig. Hlaupaæfingarnar eru með „hefðbundnu sniði“, þ.e. hraðaæfing á þriðjudegi, tempóæfing á fimmtudegi og löng hlaup um helgar. Ákefðin í æfingunum er heldur meiri en í „hefðbundnum“ áætlunum, eftir því sem FIRST-fólk segir og er æfingaálagið reiknað út frá þeim tíma sem viðkomandi einstaklingur á best í 10 km hlaupi. Ég er ekki í neinni aðstöðu til að meta hvort þessi áætlun sé betri eða verri en aðrar. Fyrst og fremst sá ég að hún myndi geta passað fyrir mig samhliða ræktinni. Ég hygg þó að þetta sé alger lágmarksundirbúningur og sérstaklega væri gott að klára fleiri löng hlaup um og yfir 30 km. Fyrir áhugasama gef ég hér upp slóðir á bæði heimasíðu FIRST og greinina í runnersworld.com

http://www.furman.edu/FIRST/

http://www.runnersworld.com/article/0,5033,s6-51-56-0-8257,00.html

 

Jómfrúarhlaup Halldórs

Til gamans fylgir hér ein vísa í lokin en höfundur hennar er að sjálfsögðu hirðskáld eyfirskra hlaupara, Davíð Hjálmar Haraldsson. Þannig var að vinnufélagar mínir, þeir Elías og Valur, lögðu á sig að fylgja mér austur í Mývatnssveit, óku hringinn, tóku myndir og hvöttu mig og aðra hlaupara áfram. Tóku síðan sjálfir þátt í hálfu maraþoni daginn eftir. Í tölvupósti sem fór á netfangaskrá langahlauparadeildar UFA nokkrum dögum fyrir hlaup sögðu þeir frá þessari áætlun, þ.e. að þeir myndu fara upp í Mývatssveit síðdegis á föstudegi og „fylgjast með Halldóri hlaupa jómfrúarmaraþonið,“ eins og sagði orðrétt. Í kjölfarið kom þessi vísa frá Davíð.

 

Með þetta skap og þennan dug

og þrekið brjóst og læri

-ekki datt mér hreint í hug

að Halldór jómfrú væri.

-DHH


Svæði

 Ungmennafélag Akureyrar   |   UFA