• MÍ 11-14 2021
 • hlaup

  Langar ţig ađ hlaupa?

  UFA Eyrarskokk býđur upp á hlaupaćfingar viđ allra hćfi. Kynntu ţér máliđ og prófađu ađ kíkja á ćfingu.

  Nánari upplýsingar hér.

   

 • MÍ 15-22 ára 2021

  UFA býđur upp á frjálsíţróttaćfingar fyrir alla aldurshópa. Viđ getum bćtt viđ okkur iđkendum í öllum aldursflokkum. Nánari upplýsingar hér.

Staulast upp stiga í Berlín

Davíð Hjálmar Haraldsson tók þátt í Berlínarmaraþoni 2003

Fyrir ári fórum við  nokkrir skokkarar á Akureyri að ræða það í fullri alvöru að gaman gæti verið að taka þátt í maraþonhlaupi erlendis.  Varð úr að heiðra Þýskaland með nærveru okkar og vorum við fimm talsins sem ákváðum að fara í 30. Berlínarmaraþonið sem vera átti 28. september.  Berlín varð fyrir valinu af því að þar er á þessum árstíma veðurfar okkur hagstætt, einnig er brautin sérlega flöt og góð.  Í Berlín hafa verið sett nokkur heimsmet og fjölmörg landsmet, t.d. voru Íslandsmet bæði karla og kvenna sett þar.  Auk okkar skokkaranna ætluðu tveir aðdáendur að slást í hópinn þannig að þetta átti að verða sjö manna ferð.  Var nú æft af kappi og tóku sumir þetta alvarlega og æfðu undir stjórn frægra þjálfara.  Aðrir æfðu minna og treystu frekar á brjóstvitið.  Þegar kom fram á sumar tók að fækka í hópnum sem átti heimangengt og á endanum urðu aðeins tveir skokkarar eftir.  Þetta voru þeir Halldór Halldórsson og undirritaður, Davíð Hjálmar Haraldsson (Gamli).  Ekki fylgdu aðdáendur.  Þetta var fyrsta hlaup mitt erlendis en Halldór var reyndari. 

 

Fimmtudaginn 25. september s. l. var flogið til Kaupmannahafnar en þaðan áttum við bókað far með lest til Berlínar með viðkomu í Malmö.  Á Danagrund kom babb í bátinn.  Engir lestarmiðar fundust á flugvellinum þrátt fyrir vandlega leit.  Eftir fjölmörg símtöl við ferðaskrifstofur í Danmörku, Ungverjalandi og á Íslandi kom í ljós að búið var að ógilda miðana.  Reglurnar voru þá þannig að miðana átti að taka á flugvellinum tveim dögum áður en um það höfðum við ekki hugmynd.  Ferðaskrifstofan á Akureyri sem seldi okkur miðana hafði ekki minnst á þetta einu orði, virtist reyndar ekki vita af þessu.  Lyktir máls urðu þær að við urðum að kaupa miðana aftur og eigum við nú hönk upp í bakið á ferðaskrifstofunni.  Næturferðin til Berlínar gekk vel þar til undir morgun og á síðustu kílmetrunum að lestin bilaði og varð af þriggja tíma töf.  Þetta kom sér vel fyrir okkur því að við komumst ekki strax inn á hótelherbergi okkar.  Föstudagurinn fór allur í að skoða gríðarmikla íþróttavörusýningu í borginni, sækja keppnisgögn, skoða aðstæður við upphaf og endi hlaups og síðast en ekki síst að læra á lestarkerfið.  Ég lét Halldóri eftir að sjá um síðasta þáttinn, sjálfur hvíldi ég hugann.  Á hinn bóginn var ekki hægt að hvíla fæturna og vorum við dauðþreyttir að kvöldi.   Á laugardaginn þurftum við lítið að vera á ferli, hvíldumst að mestu og þreytuverkir í fótum minnkuðu.  Aðeins var þó litið á frægar byggingar í borginni og eru sumar stórfeng verk úr gleri og stáli.  Einkum virðist nú byggt upp þar sem Berlínarmúrinn var áður.

 

Sunnudagurinn rann upp með góðu veðri, logni og skýjuðu og hélst svo að mestu meðan á hlaupinu stóð.  Þó var óþarflega heitt síðustu kílómetrana eða um 20 stig en ég held að það hafi ekki komið að sök.  Við töldum okkur halda snemma á hlaupstað en reyndin varð sú að við náðum rétt í tæka tíð eftir nokkurn þvæling fram og aftur.  Þótt allt í sambandi við hlaupið hafi verið frábærlega vel skipulagt og merkt, vandaðist málið þegar við sveitamennirnir þurftum að troðast í gegn um þröng 34.998 hlaupara sem einnig þurftu að koma sér fyrir.  Berlínarmaraþonið er einmitt eitt af stærstu hlaupum heims og þátttakan í því nú var sú mesta sem verið hefur, reyndar var uppselt í hlaupið um mitt sumar.  Áður en hlaupið hófst léttu menn á sér, bæði notuðu menn kamra sem mýgrútur var af en einnig stöldruðu margir við runna og tré sem þarna eru gróskumikil eftir hlaup liðinna ára.  Gott pláss er í kring um rásmark og endamark hlaupsins, þar eru víðáttumikil torg og flatir sem tjöld og annar búnaður kemst vel fyrir á.  Einnig var öllum götum lokað þarna í kring og auðvitað var engin umferð leyfð á þeim götum sem hlaupið var á.  Við rásmark var raðað í 8 flokka eftir getu hlaupara og voru bestu hlaupararnir fremst eða í flokki A.  Við vorum í flokki E en aftasti flokkurinn H var langtum stærstur.  Reyndar virtu hvergi nærri allir þessa flokkun og sáum við marga “H-hlaupara” troðast fram í okkar flokk.  Útkoman varð svo auðvitað sú að í byrjun hlaups þurftum við að fara fram úr þúsundum hlaupara sem höfðu byrjað of framarlega.  Það var ótrúleg sjón að sjá ólgandi mannhafið við upphaf hlaups.  Raðað var upp á 8 akreina breiðri götu og var röðin mörg hundruð metra löng, líklega hefur þetta verið allt að kílómetra löng mannþröng.   Svo reið skotið af (sem ég heyrði nú reyndar ekki) og manngrúinn mjakaðist af stað.  Rétt í þann veginn sem við komum að rásmarkinu voru allir farnir að hlaupa þótt þröng væri á þingi.  Fyrstu fimm kílómetrana var ekki hægt að ná nægum hraða fyrir þrengslum og eins og fyrr sagði var þarna fjöldi hlaupara sem fór of hægt og þvældist fyrir.  Svo lagaðist þetta nú og var varla til trafala það sem eftir var hlaups.  Meðfram allri brautinni höfðu áhorfendur komið sér fyrir og skiptu þeir hundruðum þúsunda.  Þeir tóku mikinn þátt í hlaupinu með hvatningu af ýmsu tagi.  Þarna voru menn með trumbur, flautur, skellur og hringlur af ótal gerðum, þeir klöppuðu, hrópuðu og sungu og einnig voru þarna heilu hljómsveitirnar.  Þarna var meira að segja Fílharmóníusveit Berlínar en hún nennti ekki að bíða eftir okkur og hafði lokið leik þegar við fórum um.  Á einum stað lá leiðin undir járnbrautarbrú og þar hafði flokkur trumbuslagara komið sér fyrir.  Rétt í þann mund sem við hlupum hjá fór lest yfir brúna og þá tóku trumbuslagararnir sig til og lömdu sem mest þeir máttu.  Hávaðinn var yfirþyrmandi, ærandi.  Ég hef varla lent í öðru eins.   Fjölmargir Danir tóku þátt í hlaupinu og voru danskir áhorfendur áberandi, þeir skemmtu sér vel og hvöttu sína menn.

 

Drykkjarstöðvar voru svipaðar og við þekkjum hér heima, stærri að sjálfsögðu og þar voru til reiðu bananar auk vatns og orkudrykks.  Einnig var þar vatn til að dýfa í svampi til kælingar en svampinn fengum við með keppnisgögnum.  Ekki voru stöðvar þessar nógu vel merktar or er það líklega það eina sem ég get fundið að skipulagningu hlaupsins, reyndar voru kílómetramerkingar varla nógu glöggar heldur.  Stöðvarnar virtust ekki heldur vera nákvæmlega þar sem þær áttu að vera samkvæmt upplýsingum svo að við þurftum að vera vel á verði til að missa ekki af vökvun.  Því má svo við bæta að á nokkrum stöðum voru úðarar með vatni svo að hægt var að hlaupa í sturtu til kælingar og hefði það sjálfsagt komið sér vel ef heitt hefði verið í veðri.  

 

Fyrir hlaupið voru markmið okkar Halldórs nokkuð mismunandi.  Halldór fór í þetta með opnum huga, ætlaði þó að bæta sig en ég ætlaði mér öllu meira.  Lágmarkið var að setja met í aldursflokknum og helst að bæta það verulega.  Fljótlega í hlaupinu fann ég að á brattann yrði að sækja því að þreyta sat í skrokknum eftir gönguferðir síðustu daga.  Eftir u.þ.b. 25 kílómetra var ég orðinn allt of þreyttur miðað við fyrri hlaup og vonir um glæstan árangur dofnuðu.  Við fórum líka nokkru hægar en áætlað var, ég réði hraðanum en Halldór fylgdi mér eins og skugginn enda erum við á mjög svipuðu róli hvað varðar getu í löngum hlaupum.  Eftir þrengslin á fyrstu 5 kílómetrunum hélst hraðinn nokkuð jafn allt hlaupið þar til undir lokin að heldur dró af okkur og á lokakaflanum fóru nokkrir hlauparar fram úr okkur.  Þegar kílómetri var eftir í mark þyngdist sporið allt í einu hjá Halldóri svo að hann dróst aðeins aftur úr en mér tókst að halda í horfinu.  Ekki nægði orkan þó í endasprett eins og í fyrri hlaupum og samkvæmt mynd á netinu er stíllinn á marklínunni ekki glæstur.  Margar myndir voru teknar af hverjum hlaupara og getum við keypt þær.  Ég hef ekki enn ákveðið hvaða myndir ég tek en “Komið í mark” verður það varla.  Ekki náðist það markmið að setja met í aldursflokknum en tími minn var 3:22:27 og vantaði rúma mínútu til að ná metinu, bætti mig samt um 6 mínútur.  Halldór hljóp á 3:23:32 og bætti sig um 7 mínútur.  Við markið fengum við þær fréttir að heimsmet karla hafði fallið, ekki ónýtt að hlaupa með þeim besta þótt við værum nú ekki alveg á hælum hans.

 

Eftir hlaupið fóru margir í sturtu á staðnum og einhverjir sáust þurrka sig eftir baðið úti á grasflöt, voru þar á adamseplinu einu saman í góða veðrinu.  Margir þáðu nudd sem þar bauðst ókeypis og voru þar langar biðraðir.  Eftir klukkutíma hvíld var Halldór aftur orðinn eins og unglamb þar sem hann skoppaði um grasflatirnar en ég var öllu þyngri á mér.  Á leið heim á hótelið staulaðist ég upp stigana á lestarstöðvunum eins og tíræð kona með gyllinæð, komst þó heim á hótel að lokum.

 

Ég er strax farinn að hlakka til næsta hlaups.

 

Gamli

Svćđi

 Ungmennafélag Akureyrar   |   UFA