• MÍ 15-22 ára 2021

    UFA býður upp á frjálsíþróttaæfingar fyrir alla aldurshópa. Við getum bætt við okkur iðkendum í öllum aldursflokkum. Nánari upplýsingar hér.

  • hlaup

    Langar þig að hlaupa?

    UFA Eyrarskokk býður upp á hlaupaæfingar við allra hæfi. Kynntu þér málið og prófaðu að kíkja á æfingu.

    Nánari upplýsingar hér.

     

  • MÍ 11-14 2021

1. maí hlaup UFA

UFA hefur haldið 1. maí hlaupið allt frá fyrstu starfsárum sínum. Hlaupið er keppni á milli grunnskóla þar sem keppt er um hlutfallslega þátttöku og sá skóli sem sigrar hlýtur veglegan bikar. Í skólakeppninni geta krakkarnir valið um að hlaupa 2 eða 5 km og 5 km hlaupið er einnig opið öðrum keppendum.

Einnig er boðið upp á leikskólahlaup, þar sem leikskólakrakkar hlaupa einn hring á vellinum. Hlaupið er eingöngu til gamans, ekki er um keppni milli leikskóla að ræða.

 

Hlaupaleiðir og vegalengdir

Hlaupið er frá Þórsvellinum, vegalengdir eru þrjár: 400 m, 2 km, 5 km. Hægt er að sjá kort af leiðunum með því að smella á fyrirsagnirnar.

Hlaupaleið í 2 km hlaupi:

Hlaupið er ræst við suðurenda stúkunnar. Hlaupið eftir brautinni en út af henni á móts við Bogann. Hlaupið eftir stéttinni meðfram Boganum og út um hliðið neðan við hann. Þar er tekin u-beygja og farið inn á malarveginn neðan við íþróttavöllinn. Stígurinn hlaupinn út á enda og niður Háhlíð. Beygt þar til hægri og hlaupið eftir Höfðahlíðinni framhjá Glerárskóla upp að Drangshlíð. Beygt þar til hægri og inn á stíginn ofan við íþróttavöllinn. Hlaupið eftir stígnum að Hamri og inn á völlinn ofan við Hamar og endað inni á vellinum á sama stað og byrjað var.

Hlaupaleið í 5 km hlaupi:

Hlaupið er ræst á vellinum og beygt upp á göngustíginn ofan við Hamar. Hlaupið eftir stígnum niður að Skarðshlíð og yfir götuna á gangbrautinni. Skarðshlíðinni fylgt að Borgarbraut, farið yfir Borgarbrautina og inn á göngustíginn sem liggur ofan Glerár og honum fylgt upp á Hlíðarbraut og síðan niður á Þingvallastræti. Beygt inn á göngustíg á móts við Hrísalund, framhjá háskólanum og gegnum undirgöngin undir Borgarbrautina, yfir Glerá og upp á Höfðahlíð. Krækt niður fyrir Glerárskóla og inn á völlinn að markinu.

Keppni hefst kl. 12:00 í krakkahlaupinu en 12:45 í 5 km - en athugið að skráningu lýkur kl. 11:00.

Hlaupin verða ræst í þessari röð:
Leikskólahlaup kl. 12:00
Allir leikskólakrakkar hlaupa saman einn hring á vellinum.

2 km hlaup, fyrsti hópur kl. 12:15
11 ára og eldri (stelpur og strákar)
9-10 ára (stelpur og strákar)
7-8 ára (stelpur og strákar)

Foreldrum er velkomið að fylgja börnum sínum í hlaupinu og þurfa ekki að greiða þátttökugjöld fyrir það.

5 km hlaup kl. 12:45
Allir hlauparar ræstir á sama tíma.

 

Skráning

Æskilegt er að sem flestir skrái sig fyrir keppnisdag, það auðveldar mótshöldurum utanumhald og dregur úr örtröð á hlaupadag. Keppnisgjöld eru því lægri í forskráningu auk þess sem þeir sem skrá sig í forskráningu eiga möguleika á að hreppa útdráttarverðlaun frá styrktaraðilum hlaupsins. Forskráning fer fram á netskráning.is

Hægt er að forskrá sig á netskraning.is til miðnættis 30. apríl. Einnig verður hægt að forskrá sig í Sportveri 30. apríl frá kl. 15-17 og sækja keppnisgögn. Á keppnisdag verður hægt að skrá sig í Hamri frá kl. 9:30–11:00. Hægt verður að nálgast keppnisgögn þar til kl. 11:30.

 

Þátttökugjöld

Börn 16 ára og yngri: frítt í forskráningu / kr. 2000 á hlaupadag
Fullorðnir: kr. 2000 í forskráningu / kr. 3000 á hlaupadag

 

Verðlaun, viðurkenningar og veitingar


Allir þátttakendur fá Greifa-pizzusneið og hressingu frá MS í lok hlaups gegn afhendingu þátttökunúmers.

Allir þátttakendur fá viðurkenningarpening.

Verðlaun verða veitt fyrir fyrstu þrjá keppendur í eftirtöldum aldurshópum í 5 km hlaupinu:

12 ára  og yngri (fæðingarár 2010 og síðar)

13-14 ára (fæðingarár 2008-2009)

15-16 ára (fæðingarár 2006-2007)

17 ára og eldri (2005-)

Þeir skólar sem eru með hæst hlutfall þátttakenda annars vegar í flokki fámennra skóla (1-99 nemendur) og hins vegar í flokki fjölmennra skóla (100 nemendur eða fleiri) hljóta veglegan farandbikar og eignarbikar.

Þeir sem skrá sig í forskráningu eiga möguleika á að hreppa útdráttarverðlaun frá Sportveri.

 

 

 

Svæði

 Ungmennafélag Akureyrar   |   UFA