• MÍ 11-14 2021
 • MÍ 15-22 ára 2021

  UFA býđur upp á frjálsíţróttaćfingar fyrir alla aldurshópa. Viđ getum bćtt viđ okkur iđkendum í öllum aldursflokkum. Nánari upplýsingar hér.

 • hlaup

  Langar ţig ađ hlaupa?

  UFA Eyrarskokk býđur upp á hlaupaćfingar viđ allra hćfi. Kynntu ţér máliđ og prófađu ađ kíkja á ćfingu.

  Nánari upplýsingar hér.

   

Fyrsta maraţoniđ mitt

Rannveig Oddsdóttir hljóp sitt fyrsta maraþon á Mývatni 2000 

Mývatnssveit skartaði sínu fegursta þetta sumarkvöld og hlaupið var ræst í glampandi sól en svolitlum vindi. Fyrstu kílómetrana hlupum við á móti vindinum, sem var óþarflega mikill en ég hafði þó það mér til hughreystingar að hann hlyti þá að vera í bakið seinna í hlaupinu. Fyrstu kílómetrana var ég upptekin af því að stilla hraðann og finna 4:30 mín./km. hraðann sem ég stefndi á að hlaupa hlaupið á og átti að skila mér í mark á undir 3 klst og 30 mín. Það gekk ekki alveg nógu vel, fyrsta kílómetrann hljóp ég heldur hraðar en ég ætlaði og næstu kílómetrar þar á eftir urðu heldur hægari en þar setti vindurinn líka svolítið strik í reikninginn. Ég ákvað því að hugsa ekki of mikið um einhverjar sekúndur til eða frá og fór að einbeita mér að hlaupafélögunum og ná mér í félagsskap. Það gekk vel og ég hafði félagsskap allan fyrri hluta hlaupsins og gat spjallað um fyrri maraþonhlaup, tímaáætlanir o.þ.h. Þegar hlaupið var rúmlega hálfnað og við komum í löngu brekkuna niður að Reykjahlíð sagði ég hins vegar skilið við þessa ágætu félaga, því það var svo ljómandi þægilegt að gefa aðeins í undan brekkunni.

Þegar 30 km. voru að baki fór ég að finna fyrir svolítilli þreytu og stífni í lærunum, en tókst að ýta þeirri hugsun frá mér með því að einbeita mér að því að athuga hvað ég væri að hlaupa hratt. Ég sá líka í skottið á öðrum hlaupurum á undan mér sem mér fannst tilvalið að ná til að fá svolítinn félagsskap. Klappliðið mitt skilaði sér líka á þessum kafla og gaf mér kærkomna kvatningu fyrir síðustu kílómetrana. Ég beið alltaf eftir að "hlaupa á vegginn" þegar leið á seinni hluta hlaupsins en leið bara stórvel allan tímann. Ég fór því að velta því fyrir mér undir lokin hvort ég væri ef til vill að hlaupa óþarflega hægt og gaf heldur í síðustu kílómetrana. Þá sá ég líka fram á að ná að klára hlaupið undir 3:15 og fannst 3:13 freistandi tala og náði að ljúka hlaupinu á 3:13:20 sem var framar mínum björtustu vonum.

Ég var fannst mér hin hressasta þegar ég hljóp í markið og fannst að ég gæti alveg hlaupið nokkra km. í viðbót en fann um leið og ég stoppaði að ég var örþreytt í fótunum. Síðustu km. voru líka á móti vindinum og hitastigið komið niður undir frostmark svo ég kólnaði og stirðnaði upp ansi fljótt þegar ég stoppaði. Ég var því þvoglumælt af kulda og áreynslu og riðaði líka svolítið eftir að ég stoppaði en leið að öðru leyti ljómandi vel.

Inni á Skútustöðum var boðið uppá súpu, brauð og fleira góðgæti. Ég fékk mér nokkrar skeiðar af súpu, en hafði frekar litla lyst og þráði það eitt að komast í sund til að hlýja mér. Ég fór því fljótlega að leita að sundlauginni ásamt systur minni. Við fórum nátturlega snarvitlausa leið og þurftum að labba niður bratta brekku, sem er með þeim erfiaðri sem ég hef gengið niður þó lítil væri, þar sem kuldi, þreyta og stirðleiki háðu mér orðið all illilega. En sundlaugina fundum við og það segir kannski mest um ástandið á mér að þó aðstæðan væri hálf sóðaleg og laugin full af mýi, skellti ég mér útí og þótti það hinn mesti munaður. Ég rak systur mína til að sækja bílinn á meðan ég svamlaði um í sundlauginni. Hún þorði nú tæplega að skilja mig eftir þar sem ég var ein í lauginni og hún var hrædd um að það liði yfir mig þegar ég kæmi í hitann. En ég lofaði að leggja mig fram um að halda höfðinu uppúr lauginni og stóð við það. Það var dásamlegt að svamla um í volgri lauginni, en sturturnar voru hins vegar frekar kaldar svo ég var þeirri stundu fegnust þegar ég var komin í heitan bílinn.

Mér fannst ég finna fyrir fótunum á mér alla nóttina og ég var ansi stirð og stíf daginn eftir. Ég var líka hálf hrædd um að ég hefði tognað eða skemmt eitthvað í vinstri fætinum því það var líkast því að hann væri að lamast því þegar ég sendi honum skilaboðin "lyfta" gerðist voðalega lítið. En allt lagaðist þetta á nokkrum dögum og eftir situr afskaplega ljúf minning af mínu fyrsta maraþoni þar sem allt gekk upp.

 

Svćđi

 Ungmennafélag Akureyrar   |   UFA