• MÍ 15-22 ára 2021

    UFA býður upp á frjálsíþróttaæfingar fyrir alla aldurshópa. Við getum bætt við okkur iðkendum í öllum aldursflokkum. Nánari upplýsingar hér.

  • hlaup

    Langar þig að hlaupa?

    UFA Eyrarskokk býður upp á hlaupaæfingar við allra hæfi. Kynntu þér málið og prófaðu að kíkja á æfingu.

    Nánari upplýsingar hér.

     

  • MÍ 11-14 2021

Friðarmaraþon í Rúanda

Frásögn Rannveigar Oddsdóttur af friðarmaraþoni í Rúanda

Rúanda er ekki einn af þeim stöðum í veröldinni sem fólk almennt tengir við maraþon og ekki fyrsti staðurinn sem maraþonhlauparar skoða þegar hlaupa á maraþon erlendis. Rúanda er helst þekkt á vesturlöndum fyrir hræðileg þjóðarmorð sem áttu sér stað í landinu árið 1994 og kostuðu a.m.k. 800.000 manns lífið. En einmitt þess vegna varð landið fyrir valinu sem vettvangur friðarmaraþons sem Soroptimistar stóðu í fyrsta skipti fyrir vorið 2005.

Á Íslandi starfar virkur Soriptimistaklúbbur og þegar samtökin höfðu ákveðið að efna til friðarmaraþons ákváðu Soroptimistasystur á Íslandi að styrkja íslenskar hlaupakonur til fararinnar. Bryndís Ernstsdóttir og undirrituð duttu í lukkupottinn og fóru utan í boði Soroptimista ásamt fríðum hópi manna og kvenna sem flestir tengdust Soroptimistum á einn eða annan hátt eða slógust í hópinn til að taka þátt í ævintýraferð til Afríku. Þeirra á meðal var Helga Björk Ólafsdóttir sem var þriðja konan í hópnum sem fór utan til að hlaupa maraþon.

 

Flogið yfir hálfan heiminn

Frá Íslandi er langt og strangt ferðalag til Rúanda. Flogið var frá Keflavík til Frankfurt, þaðan til Amsterdam, þá til Nairobi og loks til Kigali höfuðborgar Rúanda. Ekki var áð á leiðinni nema rétt til að skipta um flugvélar svo það voru þreyttir og þvældir ferðalangar sem stigu út úr flugvélinni í Kigali eftir rúmlega sólarhrings ferðalag. Það var heitt að koma út úr vélinni og fyrsta hugsun örþreyttra Íslendinganna var að það yrði nú ekki auðvelt að hlaupa maraþon í þessum hita. Litlu síðar dró hins vegar fyrir sólinna og gerði hressilegann rigningarskúr sem hreinsaði loftið og kældi lítið eitt, svo það vaknaði örlítil vonarneisti hjá maraþonhlaupurunum.

Við höfðum nokkra daga til að venjast loftslaginu og ná úr okkur ferðaþreytunni áður en hlaupið fór fram. Þeir dagar voru vel nýttir í skoðunarferðir og fengum við tækifæri til að sjá svolítið af landinu og mannlífinu. Það er lítill ferðamannastraumur til Rúanda og það var því sama hvert farið var. Alls staðar vöktum við jafn mikla athygli fyrir það eitt að vera til. Sennilega höfðu margir aldrei áður séð hvítan mann. Hvað þá heilan hóp af bláhvítum Íslendingum. Við tókum líka nokkrar stuttar upphitunaræfingar, þar sem við skokkuðum um götur Kigali og vöktum ómælda eftirtekt, enda sennilega ekki á hverjum degi sem hvítar konur hlaupa um göturnar.

 

Stóra stundin nálgast

Daginn fyrir hlaupið fórum við og sóttum keppnisgögnin. Þau voru afhent á íþróttaleikvangi boragarinnar en þar hófst hlaupið og endaði. Leikvangurinn hefur sennilega verið byggður á stjórnartímum Belga í landinu. Hann hefur verið vel byggður og glæsilegur á sínum tíma en viðhaldi var hins vegar greinilega ábótavant og aðstaðan öll farin að láta verulega á sjá. Snyrtingarnar voru t.d. ekki opnar og við gengum fram hjá hverju herberginu á fætur öðru sem var fullt af gömlu drasli og dóti sem virtist ekki hafa verið notað árum saman.

Við gengum inn í herbergi þar sem tekið var við skráningum og númerum úthlutað. Þar eins og annars staðar var fremur fátæklegt um að litast. Gömlum lúnum borðum og stólum, var raðað meðfram útveggjunum og þar var tekið við nýskráningum inn um gluggana. Okkur sem höfðum forskráð okkur var hins vegar boðið sæti á meðan starfsmaður hlaupsins fann keppnisgögnin okkar. Á staðnum var aðeins ein tölva, fartölva sendifulltrúa AIMS sem var mættur á staðinn til að vera heimamönnum innan handar við skipulagningu og framkvæmd hlaupsins. Við gáfum okkur á tal við hann meðan við biðum eftir að fá númerin okkar í hendur og reyndum að spyrjast fyrir um eitt og annað varðandi skipulagningu hlaupsins. Eftir að hafa verið nokkurn tíma í landinu höfðum við vissar efasemdir um að lykilatriði í skipulaginu yrðu í lagi. Hann svaraði eftir bestu getu, en tjáði okkur að AIMS kæmi í raun ekki að skipulagningunni að öðru leyti en því að þeir leggðu línurnar og gæfu framkvæmdaraðilum lista yfir þau atriði sem þyrftu að vera í lagi. Hann fullvissaði okkur þó um að brautin væri rétt mæld þó kílómetramerkingar yrðu sennilega engar, gert væri ráð fyrir nægilega mögum drykkjarstöðvun, -og hann væri búinn að hamra á því við heimamenn að það yrði að vera nóg af vatni á þeim.

Á heimleiðinni gengum við hluta leiðarinnar, þann hluta sem átti að heita “slidly hills” og komumst að raun um að það mætti á íslensku heita “tölvert stífar brekkur”. Hafi einhverjar hugmyndir verið farnar að fæðast um hugsanlega bætingu á maraþontíma fóru þær að dala verulega eftir þennan könnunarleiðandur.

 

Lokaundirbúningur – að verjast sólinni –neyðin kennir naktri konu að spinna

Á hlaupum okkar á sólríkum dögum í Rúanda áttuðum við okkur á því að sólgleraugu eða der eru nauðsynlegur útbúnaður í landi þar sem sólin skín skært hátt á lofti. Helga Björk var undir sólina búin og var með fínustu derhúfu með sér sem hún var vön að hlaupa með. Okkur Bryndísi hafði hins vegar báðum láðst að hugsa fyrir þessu og nú voru góð ráð dýr. Í Rúanda gengur þú ekki út í næstu búð og kaupir það sem þig vantar. Að minnsta kosti ekki ef þú ert ferðamaður sem aðeins hefur dvalið nokkra daga í landinu og þekkir ekki réttu leiðirnar til að hafa uppi á fágætri munaðarvöru. Hér varð því að nota önnur ráð og þar komu handavinnuhæfileikar hlaupakvennanna að góðum notum.

Öllum hótelgestum höfðu verið gefnar derhúfur við komuna á hótelið. En þar sem hvorug okkar var vön að hlaupa með derhúfu og þær voru auk þess í stærri kantinum þótti okkur ekki góður kostur að hlaupa með þær. Við höfðum séð nokkra með fínustu skyggni til að skýla andlitinu fyrir sólinni og fengum því þá stórsnjöllu hugmynd að útbúa slík skyggni úr derhúfunum. Þar sem húsmæðraorlofið skyldi nýtt til að gera það sem aldrei gefst friður til heima var prjónadót í farangri okkar beggja og þar á meðal nál og skæri sem nú komu að góðum notum. Kollurinn fékk að fjúka af húfunum og Bryndís fórnaði einum nælonsokk í þráð til að sauma kantana niður. Upphófst nú hin skemmtilegasta handavinnustund og afraksturinn varð að lokum fínustu skyggni sem áttu eftir að sanna gildi sitt daginn eftir.

 

Friðarhlaup

Maraþondagurinn rann upp bjartur og fagur. Við fórum eldsnemma á fætur til að borða morgunmat áður en við fórum á leikvanginn þar sem hlaupið hófst. Auk okkar þriggja sem hlupum heilt maraþon, hlupu sex íslendingar hálft maraþon og nokkrir tóku þátt í skemmtiskokkinu.

Það var múgur og margmenni á leikvanginum og greinilegt að hér var stórviðburður að hefjast. Startið drógst um hálftíma sem undir venjulegum kringumstæðum hefði sett allt hlaupið úr skorðum. En eftir að hafa dvalist nokkra daga í landinu vorum við betur undir slíka töf búin. Í stað þess að ergja okkur yfir óstundvísinni nýttum við tímann til að spjalla við aðra hlaupara og virða fyrir okkur mannlífið. Útbúnaður hlaupara var allur annar en við eigum að venjast á vesturlöndum, lítið um merkjavöru og greinilega vel nýtt út úr öllu. Fæstir heimamenn voru í skófatnaði sem ég hefði kosið að hlaupa á út í búð hvað þá heilt maraþon og margir hlupu berfættir. Stúlka frá Rúanada gaf sig á tal við okkur og við gátum spurt hana aðeins út í hlaupamenningu landsins. Hún sagði okkur að það hefði ekki verið haldið maraþonhlaup í landinu áður, eða a.m.k. ekki eftir helförina. Sjálf hafði hún stundað hlaup um nokkurt skeið og tekið þátt í keppnishlaupum en aldrei hlaupið lengra en hálft maraþon. Við reyndum að miðla henni af okkar reynslubrunni og gefa henni góð ráð fyrir hlaupið.

Eftir hálftíma töf vorum við kölluð að startlínunni og hlaupið fór af stað. Spennan, kvíðinn og eftirvæntingin fyrir kílómetrunum 42 sem framundan voru var svipuð og vanalega en umhverfið allt annað. Þúsundir svertingja fylgdust með og hrópuðu hvatningarorð í bland við taktfastan trommuslátt þegar við hlupum út af vellinum. Sólin sendi sjóðheita geisla sína niður á kollinn á okkur og stakk þeirri hugsun að mér að sennilega væri þetta full heitur dagur fyrir íslenska hlaupara. Ég reyndi að einbeita mér að stemningunni til að leiða hugan frá hitanum og vegalengdinni sem framundan var og ákvað strax á fyrstu metrunum að hlaupa frekar eftir tilfinningu en fyrirframákveðnu tímaplani.

Á undirbúningstímanum hafði sú hugsun stundum skotið upp kollinum hjá mér að friðarmaraþon væri eitthvað sem fyrst og fremst liti vel út á pappírunum og væri góð leið fyrir velmegandi vesturlandabúa að sýna svolítinn samhug með stríðshrjáðum löndum í fjarlægum heimsálfum en hefði lítið vægi til að koma á friði í heiminum. Þegar hér var komið sögu og ég hljóp um götur Kigali fékk ég allt aðra tilfinningu fyrir uppátækinu. Á ferðum mínum um Rúanda fram að þessu hafði ég fundið mjög sterkt fyrir því að ég átti ekki heima hér. Ég var öðruvísi á litinn, kom frá fjarlægu landi í öðrum menningarheimi. Hvar sem ég kom truflaði ég mannlífið með nærveru minni og ég gat engan vegin fallið inn í hópinn á staðnum. En meðan á hlaupinu stóð leið mér vel meðal heimamanna og það var nánast í eina skiptið í ferðinni sem mér fannst ég falla inn í hópinn. Þar voru allir að gera það sama, hvort sem þeir voru hvítir eða svartir ríkir eða fátækir, ungir eða gamlir. Meðfram brautinni stóðu borgarbúar og kölluðu hvatningarorð til hlaupara jafnt heimamanna sem og gesta. Hugmyndin um hlaup sem sameiningartákn fór að sanna gildi sitt fyrir mér.

Áhyggjur okkar af framkvæmdinni reyndust líka ástæðulausar, öll lykilatriði, nema tímasetningar voru í lagi. Brautin var vel afmörkuð og þar sem sami hringur var hlaupinn fjórum sinnum var leiðin orðin kunnugleg þegar á leið. Brekkurnar urðu hins vegar erfiðari í hverjum hring og í síðasta hringnum voru enn að koma í ljós “nýjar brekkur”, þ.e. aflíðandi kaflar sem fóru að taka í þegar þreytan var farin að segja til sín.

Drykkjarstöðvar voru á nokkurra kílómetrafresti og þar var boðið upp á vatn í plastflöskum sem var þægilegt að grípa með sér og hafa í höndunum svolítinn spöl. Auk þess var á nokkrum stöðum hægt að fá svampa til að bleyta sig og svala sér í hitanum.

 

Maraþonið mitt

Ég ákvað fljótlega að hlaupa bara eftir tilfinningu, enda engar kílómetramerkingar til að stilla sig af með og brekkurnar í brautinni gerðu líka erfiðara að halda jöfnum hraða. Eina viðmiðið sem ég hafði um ferðahraðann var því millitíminn eftir hvern hring. Mér gekk vel fyrsta hringinn, lauk honum á 47:30 sem þýddi að með því að halda sama hraða út hlaupið gat ég náð mínum besta tíma. En brekkurnar og hitinn tóku smám saman meiri og meiri orku frá mér svo ferðatíminn í hverjum hring lengdist lítið eitt og ég var nærri 6 mínútum lengur að hlaupa síðasta hringinn en þann fyrsta. Að vissu leyti var svolítið erfitt að hlaupa saman hringinn fjórum sinnum. Þurfa að takast á við sömu brekkurnar aftur og aftur og vita að þær biðu mín á sama stað í næsta hring. En kostirnir voru líka nokkrir. Eftir fyrsta hringinn vissi ég t.d. hvar allar drykkjarstöðvarnar var að finna, sem veitti ómælda öryggiskennd í hitanum. Á íþróttaleikvanginum var fullt af fólki að horfa á, lifandi tónlist og góð stemning sem veitti veganesti fyrir næsta hring. Íslenska stuðningsliðið kom sér fyrir á góðum stað við brautina og hvatti sínar konur óspart í hvert skipti sem við hlupum framhjá. Sá stuðnginur var tilhlökkunarefni í hverjum hring.

Líkamlegt ástand mitt var með besta móti í hlaupinu öllu. En ég var þó farin að finna fyrir þreytu undir lokin. Brekkurnar reyndu vel á fæturna og hitinn var óþægilega mikill. Vatnssullið var samt það sem fór verst með mig. Í hitanum nýtti ég mér það óspart að hella yfir mig vatni ýmist úr þar til gerðum svömpum eða vatnsflöskunum. Það varð til þess að ég varð rennandi blaut í fæturna og áttaði mig ekki á því fyrr en of seint að fæturnir á mér voru að soðna all illilega. Undir lokin var ég farin að finna til í tánum og hafði á tilfinningunni að táneglurnar væru að losna ein af annari. Eins og sönnum maraþonhlauapra sæmir reyndi ég að hugsa sem minnst um það og einbeita mér að því að ljúka hlaupinu.

Bryndís var alltaf tölvert á undan mér þar til undir lokin þá fékk hún krampa og varð að hægja á sér og skokkaði og labbaði til skiptis síðustu kílómetrana. Ég fór því fram úr henni þegar nokkrir km. voru eftir og varð á undan henni í mark. Lauk hlaupinu á 3:20:41 sem er jú einum átta mínútum frá mínum besta tíma og langt frá því að vera góður á alþjóðlegan mælikvarða. En mjög ásættanlegur árangur miðað við aðstæður.

 

Fagnaðarlæti

Stemningin á vellinum var heldur kraftmeiri en við eigum að venjast heima á Íslandi. Leikvangurinn var fullur af fólki sem fylgdist með maraþonhlaupurunum tínast í mark og meðan beðið var, var boðið upp á margvísleg dans- og tónlistaratriði. Vel var hugsað um þá sem skiluðu sér á leiðarenda. Boðið upp á banana, kex og drykki að ógleymdu fríu nuddi. Íslendingarnir tóku á móti sínu fólki með hvatningarhrópum og veifuðu íslenska fánanum stoltir. Það var því sannkölluð sigurstund að hlaupa yfir marklínuna.

Úrslit voru tilkynnt fljótlega og kom þá í ljós að hlaupakonurnar þrjár frá Íslandi voru allar meðal 10 fyrstu kvenna í hlaupinu. Klappliðið réði sér ekki fyrir kæti, íslenska fánanum var veifað og hlaupakonunum þremur klappað lof í lófa.

 

Eftirköst

Oft hefur séð á fótunum á mér eftir hlaup en aldrei neitt í líkingu við það sem blasti við mér þegar ég fór úr skónum eftir hlaupið. Stóru tærnar á mér voru tvöfaldar, myndarlegar blöðrur á þeim báðum og farið að blæða undan annarri tánöglinni, vatnssullið og hitinn hefur án efa átt stærstan þátt í því hve illa fór og hlaup upp og niður brekkur skapa jú líka meiri núning á tærnar. Það varð því ekkert úr niðurskokki eftir hlaupið en þess í stað nýtti ég mér nuddþjónustuna sem boðið var upp á. Nuddið hjálpaði til við að mýkja upp vöðvana eftir átökin og draga úr harðsperrum og eymslum, skrokkurinn var í það minnst með besta móti daginn eftir.

Blöðrurnar á tánum háðu mér hins vegar dagana á eftir. Nokkrar þeirra náðu inn undir ilina svo ég átti erfitt með að stíga í fæturna þó ég gengi berfætt eða í opnum sandölum. Mér leist satt best að segja ekki á það að ég hlypi næstu mánuðina. En blöðrurnar hjöðnuðu og sárin gréru furðu fljótt. Viku eftir hlaupið gat ég farið í lokaða skó aftur og byrjað að hlaupa á ný. Nokkrar táneglur duttu af í kjölfarið, en það er jú bara hluti af fórnarkosntaði fyrir gott maraþon –og maraþonið í Rúanada var svo sannarlega nokkra tánagla virði.

Rannveig Oddsdóttir

 

Svæði

 Ungmennafélag Akureyrar   |   UFA