Unglingalandsmót UMFÍ árið 2011 var haldið á Egilstöðum um liðna helgi. Keppendur UFA og fjölskyldur þeirra voru að vanda saman á tjaldstæði. Eftir keppnisdagana kom fólk saman miðssvæðis á tjaldstæðinu og fór yfir árangur dagsins og hefur sú hefð skapast að börnin segja sjálf frá og uppskera í lokin mikið lófaklapp aðdáenda úr stuðningsliðinu. Á meðan þessu stendur er grillað og matur borðaður af bestu lyst. Í lokin er gjarnan farið í leiki og þar er kynslóðabilið brúað og allir finna barnið í sér.
Aðstæður á mótstað voru góðar og flestir vellir í göngufæri frá tjaldstæðum. Eins má geta þess að veðrið lék við hvurn sinn fingur sem var mjög ánægjulegt. Krakkarnir sem tóku þátt í nafni UFA stóðu sig öll mjög vel og voru félagi sínu til sóma. Gaman var að fylgjast með keppendum í fjölbreyttum keppnisgreinum. Má nefna greinar eins og glímu, skák, hlaup og stökk. Margir settu persónuleg met og allir gerðu sitt besta.
Árangur í einstökum greinum má sjá á slóð http://www.umfi.is/umfi09/unglingalandsmot/
Næsta mót verður haldið á Selfossi að ári og von er að sem flestir sjái sér fært að taka þátt og njóta þess að upplifa skemmtilega stemningu í sönnum ungmennafélagsanda.