• UFA bikar 2025
  • hlaup

    Langar þig að hlaupa?

    UFA Eyrarskokk býður upp á hlaupaæfingar við allra hæfi. Kynntu þér málið og prófaðu að kíkja á æfingu.

    Nánari upplýsingar hér.

     

  • MÍ 11-14 2021

Rannveig Oddsdóttir íþróttamaður UFA 2010

Rúmlega 50 manns mættu, þrátt fyrir ófærð, á nýársfagnað UFA sem haldinn var í gær.
Kynnt var val á íþróttamanni UFA 2010

Fyrir valinu varð konan sem hleypur alltaf hér um götur bæjarins, hvort sem hún er ólétt eða nýbúin að eiga og þá með barnavagn á undan sér. Þetta er hún Rannveig Oddsdóttir langhlaupari, formaður langhlauparadeildarinnar innan UFA, stjórnarmaður í UFA, húsmóðir, móðir þriggja ungra barna, kennari við HA og HI og í doktorsnámi. Hún hefur á síðasta áratug verið ein af aðalhvatamönnum í bænum fyrir langhlaupum og staðið fyrir götuhlaupum UFA og má þar nefna 1. maí hlaup, Akureyrarhlaup, Gamlárshlaup og vetrarhlaup. Hún hefur staðið í undirbúningi hlaupanna þar til hún er ræst af stað því alltaf hleypur hún sjálf. Hún er frábær fyrirmynd bæði utan vallar sem innan og hefur sannað að hægt er að bæta sig þó maður eldist því hún er 37 ára og er enn að bæta sig.
Samkvæmt afrekaskrá FRÍ eru fyrstu skráðu tímarnir hennar frá árinu 1998 í 10 km götuhlaupi og hálfu maraþoni. Fyrsta heila maraþonið er Mývatnsmaraþon árið 2000. Allar götur síðan hefur hún verið að bæta sig í þessum hlaupum öllum, hægt og sígandi orðið betri og betri og á eflaust eftir að bæta sig ennþá meira.

Á síðasta ári varð Rannveig Íslandsmeistari í maraþonhlaupi kvenna. Hún sigraði öll hlaup, sem hún tók þátt í, og bætti tímann sinn í 10km hlaupi, hálfu og heilu maraþoni. Tímar hennar í maraþoni og hálfmarþoni voru bestu tímar ársins á Íslandi og tíminn í 10 km hlaupi var annar besti tími ársins. Einnig setti hún brautarmet í Jökulsárshlaupinu síðastliðið sumar.

Hún hefur bætt sig um rúmar 9 mínútur í 10km hlaupi frá árinu 1998, úr 47:03mín í 37.51mín. Í hálfu maraþoni hefur hún bætt sig  um tæpar 23 mín, 1998 hljóp hún á 1:47:17klst en á síðasta ári 1:24:32klst . Í heilu maraþoni hefur hún bætt sig um tæpar 16 mín. Hljóp árið 2000 á 3:13:20 en í sumar hljóp hún á 2: 57:28klst.

Rannveig, innilega til hamingju, þú ert frábær fyrirmynd og vel að þessum verðlaunum komin.

Einnig voru aðrar viðurkenningar veittar; Berglind Guðmundsdóttir fékk viðurkenningu fyrir að vera frábær félagi, Einar Örn Gíslason fékk viðurkenningu fyrir jákvætt viðhorf og Selma Líf Þórólfsdóttir fyrir góða ástundun. Þau eru öll í 11-14 ára hópnum.
Í meistaraflokki fékk Heiðrún Dís Stefánsdóttir viðurkenningu fyrir frábæra ástundun og Rakel Ósk Björnsdóttir fyrir framfarir.
Íslandsmeistarar félagsins sem voru sextán á árinu fengu rós og viðurkenningu.
Agnes Eva Þórarinsdóttir átti stigahæsta afrek ársins í kvennaflokki en það var 60m hlaup innanhúss og Bjartmar Örnuson stigahæsta afrekið í karlaflokki sem var 800 m hlaup utanhúss.

Súpa og brauð og svo smákökur og kaffi á eftir voru í boði hótels KEA, Bakarísins við brúna og Kexsmiðjunnar.

 

 


Svæði

 Ungmennafélag Akureyrar   |   UFA