Marsmót UFA var haldið s.l. laugardag í Boganum. Milli 70 og 80 keppendur voru mættir á svæðið og af þeim voru um 30 10 ára og yngri sem tóku þátt í sérstakri þrautabraut. Þetta er í fyrsta sinn sem boðið er uppá þrautabraut á móti hjá okkur en þá er keppt í liðum í nokkrum greinum eins og t.d. boltakasti, spretthlaupi og jafnfætis stökki. Sigurvegarar keppninnar er svo það lið sem hefur bestan samanlagðan árangur allra keppenda. Þessi keppni tók u.þ.b. klukkutíma og lukkaðist vel.
Keppni 11 ára og eldri var svo hefðbundin frjásíþróttakeppni og var gefinn kostur á fjórum greinum 60 m hlaupi, 60 m. grindahlaupi, kúluvarpi og langstökki. Greinarnar gengu vel og örugglega fyrir sig og þökkum við starfsfólki kærlega fyrir vel unnin störf. Keppendur og fylgifiskar þeirra fá einnig kærar þakkir fyrir þátttökuna og sérstaklega var gaman að sjá keppendur úr öðrum landshlutum.
Ekki voru veitt verðlaun fyrir árangur á mótinu en allir keppendur fengu þátttökuverðlaun og þökkum við MS og Borgarbíói stuðninginn.